Í dag er fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjaness í umfangsmiklu fíkniefnamáli þar sem sex manneskjur eru ákærðar. Ákært er vegna brota sem eru sögð framin vorið 2022.
Í fyrsta ákærulið eru fjórar manneskjur ákærðar fyrir að hafa haft í vörslum sínum í jarðhýsi við sumarhús á ónefndum stað tæplega 3,5 kg af kannabislaufum, um 1,5 kg af af maríhúana og 91 kannabisplöntu. Eru þau sökuð um að hafa ræktað kannabisplönturnar. Lagði lögregla hald á þessi fíkniefni við leit en einnig fann hún við rannsókn sama máls tæplega 10 kg af maríhúana í öðru sumarhúsi.
Fimmti sakborningurinn er ákærður fyrir að hafa haft í vörslum sínum 780 g af maríhúana sem hann tók við frá einum af sakborningunum sem ákærðir eru í fyrsta ákærulið.
Í þriðja ákærulið er kona, sem er ein fjórmenninganna, ákærð fyrir að hafa haft í fórum sínum rúmlega 86 g af maríhúana og 40 ml af kannabisblönduðum vökva sem lögregla fann við leit í fyrrnefnda sumarhúsinu, og er sumarhúsið sagt vera heimili konunnar.
Þess er krafist að sakborningarnir verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Krafist er upptöku á fíkniefnunum sem voru haldlögð og alls kyns búnaðar sem notaður eru til fíkniefnaframleiðslu. Auk þess er krafist upptöku og töluverðu af reiðufé. Er þetta orðað svo í ákæru:
„Krafist er upptöku á 3.445 g af kannabislaufum, 11.930 g af maríhúana, 91 kannabisplöntu, 40 ml. af kannabisblönduðum vökva, 36 gróðurhúsalömpum, 16 þurrkgridum, 50 straumbreytum, 7 viftum, 2 kolasíum, vatnsbóli úr plasti, 2 hitablásurum, 22 vatnsdælum, skilvindu, sbr. munaskrá nr. 162510, rakatæki, 9 gróðurhúsalömbum, hitablásara, 3 straumbreytum, sbr. munaskrá nr. 163602 með vísan til 6. og 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. Þá er krafist upptöku á kr. 1.500.000,-, 300 USD, 25 pundum og 15 evrum, sem fannst við leit á heimili ákærða F, með vísan til 1 tl. 1. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“
Þess má geta að meint brot eins sakborningsins eru ekki tilgreind í ákærunni.