Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ógilt þá ákvörðun aðalfundar MÍR – Menningartengsla Íslands og Rússlands þann 26. júní 2022 að selja húsnæði félagsins að Hverfisgötu 105. Að auki voru ákvarðanir um að andvirði sölunnar myndu renna sem stofnfé í sérstakan Menningarsjóð MÍR sem og kosningar nýrrar stjórnar félagsins ógildar.
Forsaga málsins er sú að mikil ónægja blossaði upp með ofangreindar ákvarðanir aðalfundarins árið 2022 og töldu nokkrir félagsmenn í félaginu að ekki hefði verið boðað til aðalfundarsins með lögmætum hætti. Til að mynda var fundurinn aðallega auglýstur með því að líma blað á útidyr húsnæðisins þar sem upplýsingarnar komu fram.
Þrír félagsmenn, Ívar Haukur Jónsson, formaður MÍR til fjögurra áratuga og fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, Ragnhildur Rósa Þórarinsdóttir, eiginkona hans, og Alexandra Kjuregej Argunova, listakona höfðuðu í kjölfarið mál gegn félaginu til þess að koma í veg fyrir söluna.
Í ítarlegum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem lesendur geta kynnt sér hér, komst dómari í stuttu máli að þeirri niðurstöðu að fallast á kröfu stefnenda, út frá lögum félagsins, og ógilda ákvarðanirnar enda sagði dómari að aðferð félagsins við að boða á fundinn væri „sjaldgæf og fornfáleg“ og en engin sérstök rök hefðu komið fram af hverju sú aðferð var valin.
Saga MÍR telur meira en sjötíu ár en nokkrir landsfrægir menningarforkólfar sem voru hallir undir kommúnisma og sósíalisma, eins og Halldór Laxness og Þórbergur Þórðarson, komu að stofnun félagsins. Starfsemin var öflug um árabil og félagarnir á annað þúsund en hinn síðari ár hafa seglin dregist saman.