Ásmundur gerir á Facebook-síðu sinni fréttir síðustu daga að umtalsefni, meðal annars brotalamir á svokölluðum harkaraprófum eins og fjallað hefur verið um. Dæmi eru um að erlendir einstaklingar sem taka slík próf nái þeim með bravúr, þrátt fyrir að skilja ekki íslensku.
Sjá einnig: „Startgjaldið“ komið í 10 þúsund krónur þegar farþeginn kom inn í bílinn
Sjá einnig: Bergþóra lýsir svindlinu: „Útlendingarnir taka myndir af spurningunum“
Ásmundur segir á Facebook-síðu sinni að sú mynd sem dregin er upp af stöðunni á leigubílamarkaði sé verri en nokkur átti von á.
„Fréttir af árásum bílstjóra á viðskiptavini, aðallega konur, taxtasvindl og hálf ónýtir bílar hafa stórskaðað ásýnd og starfsstétt leigubílstjóra. Þá hefur framkvæmdin náð ákveðnum hæðum, (lægðum) með fréttum af prófafyrirkomulagi fyrir leigubílslaprófi, harkarapróf,“ segir Ásmundur sem er ekki ánægður með þróun mála.
„Sem gamall félagi í Hrekkjalómafélaginu hefðu uppfinningasamir félagar í þeim félagsskap ekki getað fundið upp annan eins furðuhrekk til að gera grín af leigubílstjórastéttinni og aðgengi að henni eins og nú er gert,“ segir Ásmundur sem endar færslu sína á þessum orðum:
„Við verðum að endurskoða þá breytingu sem þingið gerði á lögunum og biðja leigubílstjóra og viðskiptavini þeirra afsökunar á fljótræði þingsins að skapa glundroða í þjónustu leigubílstjóra.“