Alvarlegt umferðarslys varð á Hafnarfjarðarvegi klukkan þrjú í nótt. Að sögn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu þurfti að beita klippum til að ná ökumanni úr bifreiðinni en hann var einn í henni. Frekari upplýsingar um líðan ökumannsins liggja ekki fyrir.
Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hafa haft í nógu að snúast síðastliðinn sólarhring og fóru sjúkrabílar í 127 verkefni, þar af 37 á forgangi, á meðan dælubílar slökkviliðsins fóru í fimm verkefni.
Bar þar hæst eldur sem kom upp á Garðatorgi í Garðabæ um eitt leytið í nótt. Þangað var allur tiltækur mannskapur sendur af fjórum stöðvum. Slökkvistarf gekk vel en töluverður reykur var kominn um bygginguna. Var mannskapur á svæðinu til að verða þrjú í nótt.