Helga Helgasyni, kennara við Menntaskólann að Laugarvatni, verður sagt upp störfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.
„Stjórn skólans og Helgi hafa sammælst um að hann fari í leyfi frá og með deginum í dag og í kjölfarið verði gengið frá starfslokum,“ segir í tilkynningunni.
Stjórn skólans fundaði í gær vegna ummæla Helga á samfélagsmiðlum. Lutu þau meðal annars að þátttöku Bashar Murad í Söngvakeppni Sjónvarpsins.
„Verða úrslitin í kvöld heiðarleg eða verður þeim hagrætt af RÚV?? Ætla þeir á RÚV að láta grenjandi og illa skeindan Palestínuaraba vinna?,“ skrifaði Helgi á samfélagsmiðla.
Einnig hafði hann upp ummæli um komu flóttafólks til Íslans.
„2 múslílmskar arabakellingar með 7 krakka á haus. Þær eiga eftir að fá veglegar barnabætur frá okkur skattborgurnunum hér á Íslandi í boði „Góða fólksins.“
Helgi var áður formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar. Hann hefur kennt dönsku og fjármálalæsi við Menntaskólann að Laugarvatni.