Reykjavíkurborg braut stjórnsýslulög í máli fatlaðrar stúlku sem bíður eftir sértæku húsnæðisúrræði. Þetta kom fram í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í október, en úrskurðurinn var birtur á dögunum.
Um er að ræða unga konu sem glímir við miklar áskoranir sökum fötlunar. Meðal annars veldur fötlunin því að hún á til að vera árásargjörn og veitast að móður sinni, sem hún býr með ásamt yngri systur. Fyrst var sótt um sértækt húsnæðisúrræði fyrir stúlkuna árið 2008, þegar hún var aðeins 11 ára gömul. Þá voru málefni fatlaðs fólks á vegum ríkisins. Árið 2015 færðist mál stúlkunnar til Reykjavíkurborgar þegar svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra var lögð niður. Þá var stúlkan 18 ára. Hún fékk staðfestingu um að vera komin á biðlista eftir húsnæði í febrúar 2015 en síðan þá varð engin hreyfing á máli hennar.
Móðir stúlkunnar greindi í kæru til úrskurðarnefndar frá erfiðum samskiptum við borgina. Hún hafi ítrekað þurft að ganga á eftir svörum um stöðuna á biðlista sem og annarri þjónustu sem dóttir hennar á rétt á. Upplýsingagjöf hafi verið nánast engin og móðirin þurft að leita allra lausna sjálf, og líklega ekki getað nýtt sér sum úrræði hefði hún ekki fengið ábendingu frá öðrum foreldrum í sömu stöðu um rétt hennar.
Reykjavíkurborg vísaði til þess að skylda þeirra til að veita borgarbúum þjónustu feli ekki í sér að hana þurfi að veita tafarlaust. Uppbygging á húsnæði taki tíma og við röðun á biðlista sé ekki horft til aldurs heldur sé forgangsraðað á grundvelli þess hversu mikil þörf viðkomandi sé á húsnæði. Borgin bar því við að stúlkan hafi notið annars konar þjónustu borgarinnar á þessum biðtíma. Hún hafi fengið liðveislu 30 klukkustundir á mánuði, noti akstursþjónustu og fari í skammtímadvöl 10 sólarhringa á mánuði. Ráðgjafar borgarinnar hafi verið í ríkum samskiptum við móður hennar og reynt að upplýsa um stöðuna eftir bestu getu. Haldnir hafi verið fundir og móður boðin ráðgjöf.
Þessu mótmælti móðirin og sagði nánast öll samskipti hafa verið að hennar frumkvæði, og varla sé hægt að réttlæta drátt á að úthluta stúlkunni húsnæði með því að hún nýti aðra þjónustu sem hún á þó rétt á. Aðstæður á heimilinu séu erfiðar og álagið á móður og yngri systur gífurlegt. Stúlkan hafi notið þjónustu Geðheilsuteymis taugaþroskaraskana sem hafi brýnt fyrir borginni hversu nauðsynlegt það væri að stúlkan fái húsnæði, en teymið sagði að því miður væri meðferðin sem þau bjóða upp á ekki að gagnast stúlkunni vegna aðstæðna á heimili hennar. Móðir stúlkunnar sagði þá staðreynd þyngri en tárum tæki. Jólin 2021 hafi verið erfið og móðir í kjölfarið afhent borginni áverkavottorð eftir að dóttir hennar veittist að henni. Í kjölfarið hafi borgin sagt að umsókn stúlkunnar væri komin á neyðarstig. Engu að síður sé ekkert að frétta og borgin engin svör gefið um hversu löng biðin verði.
Úrskurðarnefndin rakti að samkvæmt reglugerð eigi sveitarfélag að greina umsækjendum um húsnæði frá töfum og hvenær fyrirhugað sé að húsnæði sé tilbúið. Í kjölfarið skuli vinna áætlun um útvegun viðeigandi húsnæðisúrræðis og hvort og þá hvernig annars konar úrræði standi til boða á biðtíma. Þó svo tafir á úthlutun geti verið réttlætanlegar geti það ekki réttlætt bið um ókomna tíð án þess að fyrir liggi áætlun í málinu eða virk upplýsingagjöf til umsækjanda. Gögn málsins beri ekki með sér að borgin hafi sérstaklega unnið í málum stúlkunnar á meginþorra biðtíma og ljóst að málið hafi dregist óhæfilega.
Eftir að móðir leitaði til úrskurðarnefndar ákvað borgin að senda bréf þar sem upplýst var að vonir stæðu til að úthlutun ætti sér stað árið 2024. Slíkt bréfi hafi borgin ekki sent áður. Úrskurðarnefnd sagði ljóst að fyrst nú hafi borgin gert einstaklingsbundna áætlun um útvegun húsnæðis og upplýst stúlkuna og móður um stöðu á biðlista. Var lagt fyrir borgina að hraða afgreiðslu og veita stúlkunni samþykkta þjónustu svo fljótt sem auðið er. Ef tafir verði fyrirséðar skuli upplýsa um það með reglubundnum hætti ásamt skýringum.