Karl Gunnlaugsson, athafna- og akstursíþróttamaður, er látinn 57 ára að aldri.
Greint er frá andláti hans í Morgunblaðinu í dag.
Karl var mörgum að góðu kunnur en hann var einn fyrsti Íslendingurinn til að keppa í akstursíþróttum erlendis. Keppti hann til að mynda á götumótorhjólum erlendis á áttunda og níunda áratugnum og enduro- og spyrnukeppnum hér heima. Var hann valinn akstursíþróttamaður ársins árið 1991 og vann hann fjölda Íslandsmeistaratitla á ferli sínum.
Karl hóf innflutning á KTM-mótorhjólum árið 1994 og sinnti hann því til síðasta dags. Hann kom að stofnun Sniglanna, bifhjólasamtaka lýðveldisins, árið 1984 og bar hann Sniglanúmerið #5 að því er segir í umfjöllun Morgunblaðsins í dag.
Þá var hann einn hvatamanna að stofnun Mótorhjóla- og snjósleðasambands Íslands sem er aðili að ÍSÍ í dag. Var hann formaður sambandsins og sat í stjórn þess lengi vel.
Karl lætur eftir sig eiginkonu, tvö börn og þrjá afadrengi. Útför hans verður auglýst síðar.