The New York Times segir að eiginmaður Ruth, David Gottesman, hafi verið einn af fyrstu fjárfestunum í viðskiptaveldinu Berkshire Hathaway, sem var stofnað af Warren Buffett, sem er einn ríkasti maður heims, og hafi efnast vel á því.
Ruth erfði mikla fjármuni eftir David og hefur nú gefið háskólanum einn milljarð dollara, sem svarar til um 137 milljarða íslenskra króna.
Það er ekki ódýrt að stunda háskólanám í Bandaríkjunum. The New York Times segir að margir þeirra sem ljúka læknanámi séu komnir í þá stöðu að skulda sem nemur allt að 30 milljónum íslenskra króna.
Það er engin tilviljun að Ruth gaf Albert Einstein College of Medicine peningana því hún var áður prófessor við skólann.
Gjöf hennar er ein sú stærsta sem bandarískur háskóli hefur fengið.
The New York Times segir að gjöfin sé ekki bara athyglisverð vegna þess um hversu háa upphæð er að ræða, það veki einnig athygli að hún sé gefin háskóla í Bronx-hverfinu sem er fátækasta hverfið í New York. Íbúar í hverfinu eru líklegri en aðrir borgarbúar til að deyja ótímabærum dauða og íbúar hverfisins lifa einna óhollasta lífinu af öllum Bandaríkjamönnum.
David Gottesman lést 2022, 96 ára að aldri. „Hann lét mér eftir, án minnar vitundar, stórt eignasafn í Berkshire Hathaway. Fyrirmælin voru einföld: Gerðu það sem þú vilt við hlutabréfin,“ sagði Ruth að sögn The New York Times.
Skólagjöld í Albert Einstein College of Medicine eru að sögn The New York Times um 59.000 dollarar á ári en það svarar til um 8 milljóna íslenskra króna.