„Það er sérstaklega mikilvægt að standa vörð um leikinn nú á tímum þar sem vinnudagur barna er gjarnan langur og skjátími oft mikill. Það er svo margt í boði sem getur stolið athyglinni okkar og dýrmæta tímanum sem fæst okkar eiga nóg af. Tæknin er komin til að vera eins og oft er sagt og margt gott kemur í gegnum skjáinn. En það má ekki gleyma því sem er svo óskaplega mikilvægt fyrir þroska og velferð barna – tími til að leika sér frjálst, láta hugann reika og leyfa ímyndunaraflinu að takast á flug,“
skrifa Daðey Albertsdóttir, sálfræðingur á Geðheilsumiðstöð barna – HH og Domus Mentis Geðheilsustöð, Sigrún Yrja Klörudóttir félagsráðgjafi og sjálfstætt starfandi ráðgjafi um leik barna hjá Leikvitund.is og Ásgerður Arna Sófusdóttir hjúkrunarfræðingur, teymisstýra í fjölskylduteymi hjá Geðheilsumiðstöð barna – HH og eigandi hjá Elfur Ráðgjöf í grein á Vísi.
Benda þær á að í nútíma samfélagi er alltaf nóg um að vera og aðgangur að öllum heimsins upplýsingum fæst í gegnum snjalltækin okkar og við getum náð í flesta hvenær sem er dagsins.
„Margir foreldrar tala í auknum mæli um streitu sem fylgir foreldrahlutverkinu í nútíma samfélagi enda að mörgu að hyggja. Við viljum það besta fyrir börnin okkar; sinna þeim vel, vera til staðar og hlúa vel að þeim. Þar að auki er oft pressa á að standa okkur vel í vinnu, huga að heilsunni og láta heimsmálin okkur varða.“
Benda þær að athyglisvert er að skoða þegar litið er yfir hinn dæmigerða dag hversu mikill tími gefst til að gera hluti sem eru ekki fyrirfram skipulagðir.
„Hversu mikinn tíma höfum við til að vera í flæði, dunda okkur, eiga innihaldsríkar samræður við vini, samstarfsfélaga, maka, börn? Hversu mikinn tíma höfum við til að vera í ró og næði? Og hversu oft leiðist okkur? Erum við kannski alltaf á þönum að reyna að klára öll verkefnin sem við setjum okkur fyrir þann daginn? Af hverju eru verkefnin svona mörg? Hvaða áhrif hefur þetta á börnin okkar? Og er kannski kominn tími til að hægja á?“
Greinarhöfundar segja að það hljómi kannski undarlega að þurfa að passa upp á að börn hafi svigrúm til að gera ekki neitt en raunveruleikinn er sá að mörg börn hafa sjaldan tækifæri til þess og frítími barna fer minnkandi.
„Dagskrá barna er oft og tíðum þétt skipuð. Þau eru í skólanum bróðurpart dagsins og auk þess eru mörg í skipulögðum íþróttum eða tómstundastarfi. Þau fara með að versla í matinn og eru stundum í gæslu á meðan foreldrarnir skjótast í ræktina. Þegar heim er komið þurfa grunnskólabörnin að sinna heimalestri eða námi og svo má ekki gleyma skjátímanum sem flest börn passa upp á að fá.“
Segja greinarhöfundar að eitt af því sem hefur lykiláhrif á þroska barna er að þau hafi svigrúm til að leika sér. „Að þau hafi tækifæri til að leika sér á eigin forsendum. Leikur þar sem enginn fyrirfram ákveðinn tilgangur eða útkoma stýrir leiknum heldur er það barnið og ímyndunarafl þess sem ræður för. Leikur er ekki eitthvað sem börn gera á milli mikilvægra stunda. Leikurinn er eitt það mikilvægasta sem börn taka sér fyrir hendur og er nauðsynlegur til að efla þroska og færni barna og þau læra best í gegnum leik. Þess vegna er svo mikilvægt að börn hafi svigrúm til að leika sér – líka heima!“
Benda þær á að börn hafa líka gott af því að láta sér leiðast. Þegar þeim leiðist fái þau tækifæri til að finna sjálf upp á einhverju skemmtilegu að gera. „Þegar þau finna sér sjálf eitthvað skemmtilegt að gera eflir það hugmyndaflugið, ímyndunaraflið, þrautseigjuna og sköpunarkraftinn.
Börn hafa gott af því að dagdreyma og leyfa huganum að reika. Þau þurfa rými til að melta og meðtaka það sem gerðist þann daginn. Það gera þau best í gegnum leik því leikurinn endurspeglar þeirra veruleika og upplifun. Í gegnum leikinn fá þau tækifæri til að vinna úr þeim upplýsingum sem þau meðtóku yfir daginn. Þau læra af því sem þau upplifa í umhverfinu og prófa sig áfram. Því er mikilvægt að þau fái tækifæri til þess og huga að því að ekki sé of mikið áreiti í umhverfi barnanna.“
Segja þær að eitt fyrirkomulag gildi ekki fyrir öll börn, þar sem börn hafa mismunandi getu og ólíkar þarfir. „Öll geta þau samt leikið sér á sinn hátt. Það eru ekki öll börn sem una sér í hlutverka- og ímyndunarleik. Börn eru mis skapandi og hafa ekki öll gaman af listrænum verkefnum. Það eru ekki öll börn sem vilja fylgja leiðbeiningum. Svo er gott að hafa í huga að leikurinn breytist með auknum þroska og aldri. Sama hvernig þitt barn kýs að leika sér þá er mikilvægt að þau hafi tíma og rými til leika sér á sinn hátt.“
Segja þær foreldra geta gert ýmislegt til að ýta undir sjálfstæðan leik barna sinna. Og leggja fram nokkur dæmi um það sem hefur reynst þeim og þeim fjölskyldum sem þær vinna með vel: