Í nýrri stórri rannsókn, sem evrópska hugveitan European Council of Foreign Relations (ECFR) gerði á grunni skoðanakannana í 11 Evrópuríkjum, var kortlagt hvað skiptir evrópska kjósendur mestu máli og hver sýn þeirra á framtíðina er.
Tvímenningarnir, Ivan Krastev og Mark Leonard, sem gerðu rannsóknina komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé lengur hægt að skipta evrópskum kjósendum bara í hægri og vinstri, eða andstæðinga ESB eða stuðningsmenn ESB. Baráttan um kjósendur byggist þess í stað á því hvernig stjórnmálamenn takast á við fimm stór vandamál og þau vandamál, sem kjósendur telja stærstu ógnina við framtíðina eins og staðan er núna.
Krastev og Leonard skiptu kjósendunum upp í fimm hópa, sem hver og einn tilheyri ákveðnu vandamáli sem hvíla þungt á kjósendum.
Þessir hópar eru:
Loftslagsvandinn og óttinn við útrýmingu mannkynsins.
Flóttamannavandinn og sívaxandi fjöldi förufólks.
Heimsfaraldur kórónuveirunnar og þeir veikleikar evrópska heilbrigðiskerfisins sem hann afhjúpaði.
Fjármálakreppan og verðbólgan sem ógna lífskjörum Evrópubúa.
Innrás Rússa í Úkraínu sem gerði út af við söguna um að tími stórstyrjalda í Evrópu væri liðinn.
Rúmlega 15.000 kjósendur voru meðal annars spurðir um hvaða vandamál hafi haft mest áhrif á framtíðarsýn þeirra. Niðurstaðan var mjög mismunandi á milli landa. Í Þýskalandi hafði tæplega þriðji hver mestar áhyggjur af flóttamannastraumnum. Í Frakklandi voru það loftslagsbreytingarnar sem flestir höfðu áhyggjur af. Í Danmörku voru loftslagsmálin og stríðið í Úkraínu sem voru efst í huga kjósenda. Í Portúgal og á Ítalíu var það fjármálakreppan sem flestir höfðu áhyggjur af. Á Spáni, Bretlandi og Rúmeníu var það heimsfaraldur kórónuveirunnar sem flestir nefndu sem mesta áhyggjuefnið.
„Þessi fimm vandamál eiga margt sameiginlegt: Þeirra gætir um alla Evrópu, þó af mismunandi styrk. Margir Evrópubúar telja þau ógn við tilveru sína. Þau hafa mikil áhrif á pólitík og þeim er hvergi nærri lokið,“ skrifa Krastev og Leonard í skýrslunni.