Greint var frá því í fréttum RÚV og Vísis í gær að Palestínumaðurinn Bashar Murad væri einn af tíu keppendum í Söngvakeppninni í ár. Murad, sem er búsettur í austurhluta Jerúsalem, hefur starfað með Hatara-hópnum sem tók eftirminnilega þátt í Eurovision árið 2019.
Þátttakendur verða kynntir til leiks næsta laugardag en vanalega ríkir mikil leynd um þátttakendur í keppninni áður en þeir eru afhjúpaðir. Þessi leki kemur hins vegar í kjölfar mikillar ólgu vegna þátttöku Ísraels í Eurovision og snúinnar stöðu sem reiði vegna framgöngu Ísraels á Gaza hefur komið stjórnendum Ríkisútvarpsins í. Ekki liggur fyrir hvort RÚV ætlar að taka þátt í Eurovision en stofnunin ætlar að ákveða það í samráði við flytjanda sigurlagsins í forkeppninni hér heima.
Líflegar umræður eru um málið á Facebook-síðu RÚV þar sem fréttinni af málinu er deilt. Þar segir ein kona:
„Hann einn er dreginn fram í dagsljósið á undan öðrum einungis til að friðþægja þá sem eru á móti þátttöku okkar í keppninni. Algjörlega taktlaust eins og flest í kringum þetta. Hann átti bara að vers kynntur þegar aðrir keppendur verða kynntir.“
Elísabet Kristín Jökulsdóttir rithöfundur segir hins vegar: „Þetta er eðlilegt og fallegt, að einhver skuli rísa uppúr rústunum á þessum tímum.“
Margir lýsa andúð sinni á því að erlendur maður taki þátt í keppninni. Ein kona segir: „Ef þetta er raunin má þessi keppni fara í rass og rófu fyrir mér, ég hélt að þessi keppni ætti að vera fyrir Íslendinga.“
Heiða B. Sorvino Heiðars, athafnakona, hefur blendnar tilfinningar til málsins. Framganga RÚV sé sérkennileg en óneitanlega sé það aðlaðandi tilhugsun að Palestínumaður gæti átt eftir að verða fulltrúi Íslands í keppninni:
„Ég veit ekki hvernig mér líður vegna þessa. Svo manipulative eitthvað. Og skiptir máli þó að keppandinn sem færi mögulega í okkar nafni sé palestínskur? Á sama tíma væri eitthvað sjúklega kúl við að senda palestínskan tónlistarmann upp í andlitið á Ísrael. Þessi RÚV flétta verður alltaf furðulegri og furðulegri. Er eitthvað sem RÚV er ekki til í að gera til að halda tekjunum við þetta?“
Lísa Björk Valgerður Saga er ringluð vegna þeirrar stöðu sem kemur upp. Í samtali við DV tekur hún skýrt fram að hún hafi ekkert á móti manninum sem hér á í hlut. Hún segir líka að henni finnist málið fyndið en hún skrifar eftirfarandi Facebook-færslu um það:
„Nú er ég alveg hætt að skilja. Íslenskir tónlistamenn vilja standa með Palestínumönnum og sniðganga Eurovision þetta árið vegna stríðsátakanna á Gaza, neita að stíga á svið með Ísraelsmönnum. Ok, skil það. Það á að halda Söngvakeppni sjónvarpsins engu að síður sem er árlegur Íslenskur tónlistarviðburður en sigurvegari hennar hefur verið okkar framlag í Eurovision. Ok, skil það. En svo ákvað RÚV að mögulega færi sigurvegarinn ekki með lagið sitt í Eurovision vegna þessa en…. það yrði samt í samráði við sigurvegarann. Ok, nú er þetta orðið flókið. Svo er núna það nýjasta að einn þátttakenda Söngvakeppninnar er Palestínumaður, sem býr í Ísrael og vill taka þátt í Eurovision.
Nú er þetta alveg komið í kross og ég alveg hætt að skilja. Sorry með mig. Yrði þá framlag Íslendinga í raun framlag Palestínu afþví að íslendingar vilja ekki taka þátt ef Ísrael tekur þátt en maður frá Palestínu sem sem býr í Ísrael er til í að stíga á svið með Ísraelum? Ef hann fer til Svíþjóðar fær Ísland þá öll „samúðaratkvæðin“ fyrir Palestínu og Ísland vinnur Eurovision??????“