Táningur hefur verið sakfelldur fyrir alvarlega líkamsárás sem átti sér stað fyrir utan Breiðholtslaug árið 2021. Refsing var þó látin niður falla, samkvæmt dómi sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í desember. Dómari leit til þess að drengurinn hafi verið í töluverðri geðshræringu að verja sjálfan sig eftir að brotaþoli réðst á hann fyrirvaralaust þar sem hann beið eftir strætó um hábjartan dag.
Það var ekki löngu eftir hádegi mánudaginn 18. október sem fréttir voru fluttar af því að drengur hefði orðið fyrir hnífsstungu við Breiðholtslaug. Strax var greint frá því að gerandinn hefði verið handtekinn en stungan hafi átt sér stað í átökum drengja sem hefði farið úr böndunum.
Kemur fram í dómi að eftir að lögregla kom á vettvang hafi árásarþoli verið fluttur þaðan með sjúkrabíl. Ákærði hafi beðið lögreglu í Fjölbrautaskóla Breiðholts, þar sem hann var nemandi, og vísaði hann lögreglu strax á vopnið, hníf sem hann geymdi í tösku sinni og reyndist koma úr eldhúsinu heima hjá honum. Blað hnífsins var um 8,5 sm á lengd. Ákærði var þar handtekinn og fluttur á lögreglustöð.
Fram gáfu sig fjögur vitni. Tvær stúlkur sögðust hafa séð ákærða standa einan í strætóskýli og hafi brotaþoli komið þangað og ráðist á hann. Önnur stúlkan sneri sér undan eftir að ákærði tók hníf upp úr tösku og næst þegar hún þorði að kíkja var árásin yfirstaðin og brotaþoli og ákærði að ganga af vettvangi. Hin stúlkan leit ekki undan og sá ákærða taka upp vopn og stinga brotaþola. Síðan hafi þeir báðir gengið burt og henni fundist eins og ákærði væri að elta brotaþola. Stúlkurnar tóku myndband af upphafi slagsmálanna sem þær afhentu lögreglu.
Þar voru eins tveir drengir. Þeir þekktu til bæði brotaþola og ákærða og vissu að slagsmál væru yfirvofandi. Eftir árásina hafi brotaþoli komið til þeirra, sýnt þeim stungusárið, og vitnin þá hringt á lögreglu.
Fram kemur að brotaþoli hafi hlotið djúpt stungusár sem hefði getað leitt til bana, hefði hann ekki komist undir læknishendur. Hann fékk margþátta röf á smágirni sem hefði leitt til svæsinnar lífhimnubólgu og trúlega dauða. Hann gekkst undir bráðaaðgerð þar sem gert var að görnum hans og degi síðar var hann fluttur af gjörgæslu yfir á Barnaspítala Hringsins. Brotaþoli náði sér nokkuð vel eftir áverkana.
Stjórnandi í skólanum sendi lögreglu í kjölfarið ábendingu og hafði eftir heimildarmanni sem kaus að njóta nafnleyndar, að hér hafi verið um skipulagða hefndaraðgerða að ráða. Vikur áður hafi átt sér stað viðburður sem ákærði hafði mætt á en þar hafi ónefndur drengur vikið sér að honum og sakað hann um að hafa brotið kynferðislega gegn frænku sinni sem býr í öðru sveitarfélagi. Seinna kom þó á daginn að sá var að fara mannavillt, raunverulegur meintur gerandi var annar drengur sem ber sama fornafn og ákærði. Á þessum viðburði var frændinn þó ekki búinn að átta sig á þessum misskilningi. Ákærði var hræddur og þegar stór hópur af drengjum var kominn í slagtog með frændanum sló hann frá sér.
Eftir þetta rigndi yfir hann hótunum í gegnum samfélagsmiðla. Hann yrði laminn eftir helgi og árásarmenn hans yrðu fleiri en einn. Greindi faðir ákærða frá því að hann hafi komið heim eftir þennan viðburð, kastað síma sínum í gólfið og lýst því yfir að líf hans væri búið. Hann hafi þó hætt sér í skólann á mánudegi, en til öryggis pakkað í tösku sína hníf. Dagurinn leið svo og ekkert gerðist, en ákærði var þó hræddur og ákvað að forða sér heim áður en illa færi. Hann stóð svo í strætóskýli að hlusta á tónlist þegar brotaþoli kom og kýldi hann. Lýsti ákærði því svo að eftir að árásin hófst eigi hann erfitt með að muna nákvæmlega hvað átti sér stað, enda atvik þróast hratt og geðshræring mikil. Hann reyndi að slá frá sér og slagsmálin voru þá gagnkvæm og urðu þyngri, þar til hann tók upp hnífinn og stakk brotaþola. Hann mundi ekki nákvæmlega hvernig það átti sér stað og sjálfur sagðist brotaþoli ekki hafa tekið strax eftir því að hann hafi hlotið stungusár.
Ákærði sagðist aldrei hafa vakað fyrir sér að bana brotaþola og í raun ekki ætlað sér að skaða neinn. Hann hafi óttast um líf sitt og heilsu og viljað verja sig. Brotaþoli lýsti eftirsjá við meðferð málsins fyrir dómi. Hann hafi tekið heimskulega ákvörðun að ráðast á ákærða. Hefði ákærði ekki stungið hann, hefði hann haldið áfram að lemja ákærða þar til illa hefði farið.
Ekki vildi brotaþoli þó kannast við áðurnefndan frænda og að sá hafi fyrirskipað árásina. Sjálfur var frændinn óstöðugur um sinn hlut í skýrslugjöf, en kom þó fram að hann hefði vissulega farið mannavillt og þætti það miður.
Að sama bragði kom fram að þó misskilningurinn væri nú ljós hefði ákærði haldið áfram að fá sendar hótanir og varð fyrir mikilli áreitni. Hann flosnaði upp úr námi og glímdi við erfiða tíma þar sem hann átti erfitt uppdráttar. Staða hans í dag sé þó betri, en lengi hafi hann þó verið stöðugt að líta um öxl og í stöðugu kvíða og hræðsluástandi. Faðir ákærða sagði að þetta væri góður drengur sem vildi engum illt, hann vildi bara vera félagslega samþykktur.
Dómari tók fram að af myndbandsupptökum og framburði ákærða, brotaþola og vitna megi ráða að árásin á ákærða hafi verið fyrirvaralaus þar sem hann stóð að bíða eftir strætó. Ásetningur brotaþola var einbeittur og brotaþoli hafi sjálfur greint frá því að árásinni hefði verið haldið áfram, hefði hann ekki verið stunginn. Eftir stunguna hafi ákærði sjálfur gefið sig fram hjá skólanum og tilkynnti hvað hefði gerst.
Taldi dómari ómögulegt að halda því fram að ákærði hafi ætlað sér að valda brotaþola bana. Hér væri þó um að ræða líkamsárás með sérstaklega hættulegu vopni. Ekki væri heldur hægt að deila um að ákærði hafi verið að verja sig, en hann hafi þó beitt hættulegu vopni og varnir hans alvarlegri en tilefni var til. Þar með væri ekki um refsilausan verknað að ræða á grundvelli sjálfsvarnar. Ákærði hafi þó verið hræddur. Hann hafi fengið ítrekaðar hótanir og átt von á því að hópur drengja myndi ráðast á hann. Hann taldi lífi sínu ógnað og hafi sérfræðingar borið að ákærði sé þannig gerður að hann sé með lítið þol fyrir mótlæti og eigi til að fara í djúpa örvæntingu í erfiðum aðstæðum, samhliða aukinni hvatvísi. Þetta atvik átti sér stað um hábjartan dag á fjölförnum stað. Ákærði hefði þó getað hrópað eftir hjálp, en gerði það ekki. Þar með sé verknaðurinn ekki refsilaus.
Dómari horfði þó til þess að ákærði var ungur að árum og með hreinan sakaferil. Rannsókn málsins og ákæruferli hafi tafist töluvert og sé ekki hægt að kenna ákærða um það. Þar með með vísan til þess að hér var farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar, ákærði ekki orðinn lögráða og í töluverðri geðshræringu, þá væri réttast að láta refsingu falla niður. Þarf ákærði að greiða brotaþola 500 þúsund krónur í miskabætur, verjanda sínum 3,7 milljónir og réttargæslumanni 237 þúsund.