Íslensk fjölskylda í Reykjanesbæ sakar nágrannakonu sína um ofsóknir. Þetta kemur fram í langri nafnleyndarfrásögn í Facebook-hópnum Lögfræðinördar, þar sem málshefjandi óskar eftir ráðleggingum um hvernig best sé að bera sig að í væntanlegum málaferlum.
Aðilinn sem skrifar frásögnina segir að þetta hafi byrjað fyrir fimm árum þegar fjölskyldan kærði nágranna sína margsinnis til MAST vegna vanrækslu á hundi þeirra. Hundurinn hafi síðan dáið vegna illrar meðferðar en eigendurnir hafi bitið það í sig að þau hafi eitrað fyrir hundinum hennar. Það sé hins vegar algjör fásinna.
„Nágrannaerjur!!
Hvernig er best að snúa sér í þessu?
Reyni mitt besta í að gera langa sögu stutta, þetta er samt ekki neitt neitt miðað við allt áreitið sem við höfum þurft að þola frá nágrönnum okkar.
Nágranninn okkar hefur verið OBSESSED af okkur í að verða 5 ár og fer víst versnandi á töluvert grófari hátt en hefur nokkurntímann verið. Enda erum við að átta okkur á því eftir síðustu 2 atvik rétt fyrir jól að geðveikin er á allt öðru stigi en við héldum eða gátum gert okkur grein fyrir á einhvern hátt eftir allan þennan tíma.“
Lýst er handalögmálum sem hafi komið til vegna þess að nágrannakonan hafi verið í „manísku geðveikiskasti“ og sveiflað höndum í áttina að höfundi pistilsins sem játar að hafa kýlt hana:
„Þetta gerist 15.des s.l. bara allt i einu, hún var samt búin að vera öskrandi úti í góðan tíma á hundinn sinn, börnin sín og manninn sinn áður en hún tók geðveikislega kastið á okkur.
Endaði með því að henni fannst rétt að „swinga“ höndunum í áttina að mér og hitti sem varð til þess að ég neyddist til að kýla 1 höggi á hana í sjálfsvörn, þannig að þetta er komið út í líkamlegt ofbeldi miðað við að það hafa bara verið orð á móti orði.“
Segir síðan frá því að lögregla hafi komið á vettvang og rætt við báðar fjölskyldur.
Tveimur dögum síðar, eða 17. desember, dró síðan aftur til tíðinda:
„Ég er að taka myndband í símanum af okkar hundi og dóttur minni leika sér saman bak við heimilið okkar og þá byrjar hún á því að röfla í mér að ég megi ekki taka myndband eða myndir, ég segi við hana að ég sé að taka upp myndband af barninu mínu leika sér við hundinn okkar og skýt á nágrannann hvað vitum við hvað myndavélarnar hjá þeim ná mikið yfir á okkar lóð og af okkur.. þá fer hún í einhverja svaka vörn og svarar ekki en byrjar hún svo aftur í nákvæmlega sama formi öskrandi í manísku geðveiki að ásaka okkur um að eitra fyrir hundinum sinum þvi hun er með „GRUNN“ ,nema við fengum meira út úr henni hvaða „grunn“ hún væri með þessum ásökunum sínum, sá grunur (grunn eins og hún segir) er að ég var að koma svo oft nær þeirra megin sem meikar ekki séns, enda var ég á minni lóð að vesenast í garðavinnu og græja beð og setja niður tré eins og sést augljóslega.“
Pistilhöfundur segist hafa þetta allt á myndbandi til sönnunar frásögn sinni. Tekist er á um lóðamörk og segir pistilhöfundur að nágrannakonan, sem er pólsk, þykist í sífellu eiga stærri og stærri hluta af lóð pistilhöfundar og fjölskyldu.
„Við höfum verið í ár í grindverkarframkvæmdum, þá máttum við ekki hafa grindverkið alveg alla lóðina okkar því það er upp við þeirra og áttum við að skila eftir 1m eftir því þau „eiga“ hluta af okkar lóð. (ekkert sem snýr þeirra megin svo engin þörf á skriflegu leyfi, enda allt samþykkt frá byggingarfulltrúa bæjarins).
Sama hvað við gerum á okkar lóð þá eiga þau þann part, ef við erum á okkar lóð þá er svoleiðis fylgst með minnstu hreyfingu hjá okkur til að setja út á og segja að við megum ekki gera hitt og þetta eða þykjist eiga hitt og þetta á okkar lóð..
Við vitum fyrir víst að þeirra grindverk er næstum 1m YFIR lóðamörkunum, semsagt hafa „eignað“ sér 1m af okkar lóð án samþykkis/leyfis. Einnig eru þau nokkuð nýlega búin að „byggja“ smáhýsi alveg á lóðamörkunum sem samkvæmt lögum á að vera 3m frá lóðamörkum nema með leyfi frá eigenda aðliggjandi lóða, sem við höfum ekki veitt leyfi fyrir né munum gera.
Hinsvegar viljum við að þau færi smáhýsið 3m frá lóðamörkum og mögulega jafnvel líka bara færa grindverkið á lóðamörkum.“
Pistilhöfundur segir nágrannana pólsku hafa sett upp öryggismyndavélar sem beint er að þeirra garði. Einnig hafi þau byggt smáhýsi alveg á lóðamörkunum.
Spyr pistilhöfundur hvort þau ættu að ráða sér lögmann eða hvort nægi að kæra málið til lögreglu.
„Erum ákveðin í því að kæra fyrir meiðyrði og jafnvel ofsókn líka, einnig viljum við fara fram á að smáhýsið sé fjarlægt af lóðamorkum og fært í lágmark 3m fjarlægð frá lóðamörkum eins og er samkv. lögum, mögulega líka láta þau færa grindverkið á lóðamörk.“
Pistilhöfundur segir að þau vilji bara að þetta hætti. Nú séu þau komin með nóg eftir fimm ára skálmöld og þurfi að fara með málið lengra. Þau vilji líka að dóttir þeirra geti leikið sér í friði í garðinum án þess að nágrannakonan byrji með vesen.
Pistillinn vekur blendin viðbrögð í ummælum undir færslunni. Ein kona biður höfund um að tala ekki um geðsjúkdóma á niðrandi hátt. Sú kona segir ennfremur:
„Mér finnst að þú virðist vera að mynda hana ekki síður en hún/þau að mynda ykkur. Er ekki bara hægt að hunsa hana og draga fyrir gardínur. Best er að taka ekki þátt í þessu. Ef þú drapst ekki hundinn hennar óvart með trjáeitri eða einhverju, hlustaðu þá ekki á hana. Ég held að lögreglan nenni ekki nágrannaerjum nema þær séu brot á lögum og manneskjan sé hættuleg sjálfri sér og öðrum. Hvernig fór hún illa með hundinn sem varð til þess að þú hringdir í MAST? Eignaskiptasamningur sýnir lóðamörk og auðvelt að finna út úr því. Þegar ég bjó í parhúsi með samliggjandi garð leyfði ég þeim að byggja hús ef sólin komst til mín.“