Þann 8. janúar var þingfest fyrir Héraðsdómi Vesturlands mál gegn manni sem héraðssaksóknari hefur ákært fyrir umsáturseinelti og kynferðislega áreitni.
Málið varðar háttsemi mannsins gagnvart konu árið 2022. Setti hann sig ítrekað í samband við konuna gegn vilja hennar í gegnum samskiptamiðilinn Instagram og sendi henni samtals 240 kynferðisleg skilaboð og reyndi að ná sambandi við hana með mynd- og hljóðskilaboðum í 58 skipti. Einnig hringdi hann í hana í síma í alls 156 skipti á öllum tímum sólarhringsins. Var háttsemi hans til þess fallin að valda konunni hræðslu, segir í ákærunni.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fyrir hönd konunnar er gerð krafa um miskabætur upp á tvær milljónir króna.
Þinghald í málinu verður lokað en aðalmeðferð verður síðar á árinu.