fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Jógaboltinn örlagavaldur í forsendum dómara sem hafnaði sjónarmiðum um sjálfsvörn í Ólafsfjarðarmálinu – „Ég er alveg við það að myrða þennan hobbita“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 11. janúar 2024 21:07

Héraðsdómi Norðurlands eystra -/Anton Brink.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steinþór Einarsson hefur verið dæmdur í 8. ára fangelsi fyrir að hafa banað Tómasi Waagfjörð á Ólafsfirði í október árið 2022. Steinþór bar við neyðarvörn í málinu, sem er íslenska heitið yfir refsileysisástæðu á grundvelli sjálfsvarnar. Tómas hafi mætt á vettvang vopnaður hníf og ráðist á Steinþór sem hafi tekið til varna. Ekki hafi verið ætlun Steinþórs að bana Tómasi heldur hafi það verið óhappatilvik í átökum þeirra tveggja.

Lögmaður Steinþórs, Snorri Sturluson, hefur lýst vonbrigðum með þessa niðurstöðu og verður málinu áfrýjað til Landsréttar. Þar verður að líkindum sérstaklega tekið til skoðunar hvort að sjónarmið neyðarvarnar eigi við.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra hefur nú verið birtur og má þar sjá forsendur dómara fyrir því að fallast ekki á að um neyðarvörn hafi verið að ræða.

„Ég er alveg við það að myrða þennan hobbita“

Forsaga málsins var sú að æskuvinkona Steinþórs var gift Tómasi og mun sambandið hafa einkennst af ofbeldi á báða kanta og miklum átökum. Steinþór vildi ekki vinkonu sína í þessum aðstæðum og þennan örlagaríka dag hafði kona Tómasar að ráði Steinþórs farið frá manni sínum og til sameiginlegrar vinkonu hennar og Steinþórs. Þangað hafi Tómas að lokum komið til að sækja konu sína. Hún hafi þó neitað að fara með honum og Steinþór reynt að koma Tómasi í skilning um að henni væri alvara. Þá hafi Tómas tekið upp hníf sem hann hafði tekið með sér og ráðist á Steinþór.

Dómari taldi samskipti Steinþórs við aðra í aðdraganda átakanna ekki vera neina sérstaka sönnun um að hann hafi fyrirfram ákveðið að bana Tómasi. Hafi hann heldur tekið sterkt til orða til að lýsa óánægju sinni með skilaboðum á borð við: „Ég er alveg við það að myrða þennan hobbita“

Dómari taldi framburð Steinþórs í stórum dráttum stöðugan í gegnum rannsókn og meðferð málsins. Þó tóku nokkur atriði breytingum sem þótti draga úr trúverðugleika og bera merki þess að hann væri að reyna að skjóta stoðum undir vörn sína sem byggðist á neyðarvörn. Þetta voru atriði framburðar sem varða hvernig hinn látni hlaut þá áverka sem drógu hann til bana. Steinþór hélt því fram að þessir áverkar, tvö djúp stungusár á síðu, hafi komið fyrir slysni, líklega er þeir féllu í átökunum eða þegar Steinþór reyndi að ná hnífnum af Tómasi.

Eins hafi Steinþór upphaflega sagt að þegar Tómas hneig til jarðar og missti meðvitund hafi Steinþór haldið á hnífnum, en á síðari stigum hafi hann breytt frásögn sinni og sagt að hnífurinn hafi kastast út á gólfið í átökunum. Taldi dómari þetta misræmi vera viðleitni til að fegra hlut sinn og draga úr sök.

Áverkar sem ekki komu óvart

Steinþór hafi svo haldið því fram að hann hafi ekki áttað sig á því að Tómas hafi hlotið stungusár og ekki komist að því fyrr en degi eftir átökin. Dómari benti á að í samtali Steinþórs við Neyðarlínu í kjölfar átakanna hafi skýrt komið fram að hann vissi að Tómas var með stungusár.

Réttarlæknir hafi borið að áverkar á Tómasi hafi ekki getað komið fyrir slysni. Hér væri um að ræða tvær djúpar stungur sem hann hafi hlotið á svipuðum tíma. Slíkt gerist ekki fyrir slysni.

Þannig sé Steinþór ótrúverðugur hvað mikilvægustu atriði málsins varði, þó svo að aðrir þættir í framburði hans fái stoð í sönnunargögnum. Steinþóri hafi ekki tekist að skýra áverkana á Tómasi og ljóst í frásögn hans af átökunum vanti þann hluta þegar Tómas var stunginn.

Eins fannst á vettvangi jógabolti sem hafði hlotið fimm stungur og skurði og fannst þakinn blóði. Ekki hafi Steinþór náð að skýra hvernig jógaboltinn kom við sögu, en boltinn var stunginn eftir að bæði Steinþóri og Tómasi hafði blætt, og rúllað um í blóði áður en hann varð loftlaus.

Þar með hafi ekkert komið fram til að hnekkja mati réttarlækna að áverkarnir hafi hlotist með ásetningsverki. Því væri hafið yfir skynsamlegan vafa að Steinþór hafi stungið Tómas tvisvar í síðuna af ásetningi svo bani hlaust af. Hafi Steinþóri ekki geta dulist að bani kynni að hljótast af árásinni.

Líkleg atburðarrás og hlutverk jógaboltans

Hvað neyðarvörn varðar þá gildi sú regla að verk er refsilaust sem menn vinna af neyðarvörn, að því leyti sem það hefur verið nauðsynlegt til að verjast eða afstýra ólögmætri árás, sem er byrjuð eða vofir yfir. Gildir enn fremur að þær varnir mega ekki vera augljóslega hættulegri en árásin og tjón sem af henni. mátti vænta, gaf ástæðu til.

Dómari féllst á frásögn Steinþórs og vitna um að Tómas hafi átt upptökin. Það var Tómas sem mætti á vettvang með hníf og það var sömuleiðis hann sem tók upp hnífinn og réðst á Steinþór. Þar með hafi verið réttlætanlegt fyrir Steinþór að verja sig. Hins vegar taldi dómari að skýring Steinþórs á því hvernig hann varði sig, stæðist ekki skoðun. Þar með væri ekki komin fullnægjandi skýring á áverkum Tómasar og hvernig meintri neyðarvörn var í raun háttað.

Taldi dómari líklegt að Steinþóri hafi tekist að ná hnífnum af Tómasi. Tómas hafi þá tekið upp jógabolta til að verja sig. Þarna hafi Steinþór verið sá vopnaði og Tómas varnarlaus með ekkert nema jógabolta til að verjast árás. Líklega hafi Steinþór þá lagt til atlögu, stungið jógaboltann og stungið Tómas. Miðað við þá ályktun eigi neyðarvörn ekki við.

Þó gildi sú undantekning um neyðarvörn að fari maður umfram leyfileg takmörk neyðarvarnar sökum þess að verða svo skelfdur eða forviða að hann gat ekki gætt sín, þá sé það refsilaust. Hvað það varðaði sagði dómari að þegar hafi verið dregin sú ályktun að neyðarvörn ætti hreint ekki við og því hafi ekki verið farið út fyrir leyfileg takmörk slíkrar refsileysisástæðu. Eins hafi Steinþór verið hinn rólegasti þegar viðbragðsaðilar mættu á svæðið og af lýsingum hans og vitna megi ráða að hann hafi fremur verið reiður en hræddur.

Hann var því sakfelldur fyrir manndráp. Dómari taldi Steinþór engin merki hafa sýnt um iðrun og háttsemi hans hafi verið stórhættuleg og valdið bana. Tók dómari tillit til þess að Steinþór átti ekki upptökin. Steinþór rauf með broti sínu skilyrði reynslulausnar sinnar og með hliðsjón af öllu var hæfileg refsing ákveðin 8 ár. Hann þarf eins að greiða börnum Tómasar bætur fyrir missi framfæranda, annað fær tæpar 6,6 milljónir og hitt 4,4. Steinþór þarf að greiða 6 milljónir í sakarkostnað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Grindvíkingar hentu 327 tonnum meira af sorpi í sumar en í fyrra

Grindvíkingar hentu 327 tonnum meira af sorpi í sumar en í fyrra
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Í gær

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“

Dómur yfir manni sem varð konu sinni að bana á Akureyri veldur ólgu – „Það er allt siðferðislega rangt við þessa nafnleynd“
Fréttir
Í gær

Ætluðu að slaka á í Sky Lagoon en annað kom á daginn – „Vá! Þetta er brjálað“

Ætluðu að slaka á í Sky Lagoon en annað kom á daginn – „Vá! Þetta er brjálað“
Fréttir
Í gær

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar

Síbrotamaður slær ekki slöku við þrátt fyrir margra liða ákæru – Fær gistingu í boði skattgreiðenda yfir hátíðarnar
Fréttir
Í gær

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks