Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, og Drífa Snædal, talskona Stígamóta, gagnrýna efnistök RÚV og Vísis í fréttum af meintum blekkingum skólabarna í Hagaskóla sem sent hafa fullorðnum karlmönnum klámmyndir af netinu undir því yfirskini að myndirnar væru af þeim sjálfum.
Fyrirsögn fréttar RÚV var: „Unglingar í Vesturbænu blekktu fullorðið fólk til að kaupa kynferðislegar myndir“. Í fréttinni segir meðal annars:
„Nemendur í Hagaskóla hafa blekkt fullorðna einstaklinga í gegnum samfélagsmiðla og selt þeim kynferðislegar myndir sem þeir hafa sjálfir sótt á netið. Þetta kemur fram í tölvupósti sem skólastjóri sendi foreldrum nemenda í Hagaskóla.
Málið kom fyrst upp í gær. „Ástæðan fyrir því að við setjum okkur strax í samband við alla foreldra er að þarna er verið að lýsa nýjum veruleika fyrir okkur sem við lítum alvarlegum augum. Okkar er fyrst og fremst að huga að velferð nemenda skólans og það er svona sá vinkill sem við höfum á þetta mál og viljum fá foreldra til liðs við okkur að tryggja að, það sem við lítum, hættuleg hegðun sé stoppuð helst í fæðingu,“ segir Ómar Örn Magnússon, skólastjóri Hagaskóla.“
Fyrirsögn fréttar Vísis er: „Börn villtu á sér heimildir og seldu kynferðislegar myndir“
Upphaf fréttarinnar er:
„Skólastjórnendum Hagaskóla hefur borist upplýsingar um að nemendur í skólanum hafi á undanförnum vikum villt á sér heimildir á samfélagsmiðlum, átt í kynferðislegu spjalli við fullorðna einstaklinga og selt þeim kynferðislegar myndir sem þau sjálf hafi sótt á netið.
Þetta kemur fram í tölvupósti Ómars Arnar Magnússonar, skólastjóra Hagaskóla til foreldra barna í skólanum. Þar kemur fram að málið sé komið inn á borð lögreglu og eru foreldrar hvattir til að ræða málið við börn sín.“
Skrýtið að saka börnin um netsvindl
Andrés Ingi segir það sérkennilega nálgun að gera „svindl“ barnanna að aðalatriðinu. Hann ritar á Fésbók:
„Skrítið að ramma þessar fréttir inn eins og stærsti glæpurinn sé eitthvað netsvindl. Vandamálið er að börn fá ekki að vera í friði á netinu. 40% barna í 8.-10. bekk hafa verið beðin um að senda af sér nektarmynd og flestar beiðnirnar koma frá ókunnugum á netinu. Þegar talað er um að málið sé komið á borð lögreglu, þá vona ég að það sé til þess að stoppa fullorðið fólk í að kaupa nektarmyndir af börnum.“
Drífa Snædal deilir færslu Andrésar og segir mikilvægast að taka utan um börnin:
„Einstaklega undarleg uppsetning hjá fjölmiðlum (og skólanum) og ég skil þessi börn mjög vel að koma með krók á móti bragði. Það á að taka utanum þau og vernda fyrir níðingum en ekki telja þau vera vandann.“
Ugla Stefanía tekur málið einnig upp og segir:
„Vandamálið er, og mun alltaf vera, fólk sem kaupir eða hleður niður kynferðislegum myndum af börnum. Það er vandamálið sem við stöndum hér frammi fyrir. Þessar fyrirsagnir eru stórfurðulegar, og alveg eins og það sé verið að vara barnaperra við hvaðan þeir séu að kaupa myndir.“