Suðurkóreska leyniþjónustan telur að dóttirin, sem heitir Kim Ju-ae og er talin vera um 10 ára gömul, muni taka við völdum af föður sínum þegar jarðvist hans tekur enda.
Leyniþjónustan sendi nýlega frá sér mat á þessu og er það í fyrsta sinn sem hún hefur gert mat á dótturinni og hlutverki hennar. The Guardian skýrir frá þessu.
Þegar hún birtist fyrst með föður sínum voru þau feðgin viðstödd tilraunaskot á langdrægu flugskeyti. Þar mættu þau og leiddu hvort annað. Í kjölfarið hefur hún fylgt föður sínum á marga stóra viðburði.
Þau komu saman þegar haldið var upp á dag flughersins á síðasta ári og var þá tekin mynd af henni fyrir standandi fyrir framan föður sinn. Bæði voru þau í síðum leðurfrökkum og með sólgleraugu.
Á nýársfögnuði kyssti einræðisherrann hana á kinnina og hún endurgalt kossinn.
The Guardian segir að senur af þessu tagi hefðu fyrir ekki svo löngu þótt óhugsandi í Norður-Kóreu.
Í norðurkóreskum fjölmiðlum, sem allir eru undir járnhæl einræðisstjórnarinnar, er Kim Ju-ae lýst sem „ofurelskuðu“ og „virtu“ barni.
AP hefur eftir talsmanni suðurkóresku leyniþjónustunnar að þrátt fyrir þetta mat hennar, þá telji hún að ekki sé hægt að útiloka aðra möguleika varðandi hver tekur við þegar Kim Jong-un hverfur af sjónarsviðinu. Ástæðan er að Kim Jong-un er enn ungur og ekki hefur verið skýrt opinberlega frá því að hann glími við heilsufarsvanda en hins vegar er vitað að hann glímir við offitu, reykir mikið og er að sögn frekur til áfengis. Þess utan á hann son sem er eldri en Kim Ju-ae og einnig barn sem er yngra en hún en kyn þess hefur ekki verið staðfest.