Mikið var að gera hjá lögreglu í nótt og gærkvöld samkvæmt dagbók lögreglu og komu flugeldar nokkuð við sögu en landsmenn enduðu jólahátíðina með miklum flugeldasprengingum.
Tilkynnt var um flugeldasys í hverfi 105 en þar hafði flugeldur sprungið í hendi 12 ára drengs. Fékk hann brunasár á hendi og andliti en ekki er vitað um alvarleika.
Tilkynnt var um að flugeldi hefði verið kastað inn á skemmtistað í miðborginni. Starfsmenn náðu að slökkva eldinn sem af þessu hlaust en slökkvilið sá um að reykræsta staðinn.
Lögreglumenn gáfu ökumanni stöðvunarmerki í hverfi 104. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum en jók hraðann og upphófst eftirför á eftir bílnum. Ökumaðuinnr ók á tímabili á um 160-170 km/klst. Hann stöðvaði að lokum bílinn og reyndi að komast undan á hlaupum en var hlaupinn uppi. Ökumaðurinn reyndist vera 15 ára og er málið unnið með barnavernd og foreldum. Þá voru tveir jafnaldrar ökumannsins með honum í bifreiðinni.
Tilkynnt var um umferðaróhapp í Garðabæ en þar hafði bíl verið ekið á ljósastaur. Ökumaður og farþegi slösuðust eitthvað og var bíllinn dreginn burt með dráttarbíl.
Tilkynnt var um eld í þremur bílum í Kópavogi. Sökkvilið slökkti eldinn en málið er í rannsókn.