fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Karl Wernersson gaf unnustunni aflandsfélagið á Tortóla korter í þrot – Tæmdi svo reikninginn og seldi bílinn

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 4. janúar 2024 14:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karl Emil Wernersson reyndi að skjóta hundruð milljónum undan eigin gjaldþroti með því að framselja aflandsfélagið Nordic Pharma Investment Ltd, sem meðal annars kom fyrir í Panama-skjölunum svokölluðu, til sambýliskonu sinnar á 0 krónur. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjaness sem féll í dag, en þar var framsali Karls Emils til sambýliskonu sinnar rift, sem og samkomulagi sambýliskonunnar, Gyðu Hjartardóttur við þrotabúið. 

Fyrir þá sem þurfa upprifjun þá hefur Karl Emil staðið í stappi við kröfuhafa og yfirvöld allt frá efnahagshruninu. Meðal annars hefur Karl verið dæmdur í 3,5 árs fangelsi fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína og valdið félaginu Milestone verulegu fjárhagstjóni með því að láta félagið fjármagna efndir samninga sem höfðu ekkert með félagið að gera. Milestone var samstæða sem átti meðal annars Sjóvá-Almennar tryggingar, stóran hlut í Glitni banka og Lyf og heilsu. Stærstu hluthafar voru Karl Emil og bróðir hans, Steingrímur.

Þessar ráðstafanir vörðuðu einmitt líka aðila nákomna þeim bræðrum, en þar kom við sögu systir þeirra, Ingunn. Karl hafði verið sýknaður í héraði en sakfelldur í Hæstarétti, en eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðstöður að íslenska ríkið hefði brotið gegn réttindum sakborninga til sanngjarnrar málsmeðferðar í öðrum hrunmálum, þá var mál Karls tekið upp að nýju og vísað frá Hæstarétti. En þetta varðaði bara sakamálshliðina, Karl var eftir sem áður ábyrgur fyrir kröfu Milestone á hendur honum.

Eftir stendur að þrotabú Milestone á milljarða kröfu í þrotabú Karls, en því miður fór hann fljótlega eftir sakfellingu Hæstaréttar í þrot og reyndist því miður eignalaus. Þetta eignaleysi hefur þó ekki reynst honum fjötur um fót, en hann fær að búa frítt í einbýlishúsi í Garðabæ. Húsið á sonur hans, sem er miður fyrir þrotabúið, sérstaklega þar sem þessi eigendaskipti áttu sér stað skömmu fyrir gjaldþrotaskiptin. Húsið er litlir 421 fermetrar að stærð. En líklega ekki mikið lengur þó þar sem Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að afsali Karls á eigninni til félags sonar síns, bæri að rifta að kröfu þrotabúsins. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem taldi ástæðulaust að taka það upp.

Virðist Karl hafa ætlað að bæta upp fyrir brot sín með gífurlegu örlæti þarna rétt fyrir þrotið, en það má sjá af lýsingum í dóminum sem féll í dag. Gaman er fyrir lesturinn að minnast greinar sem Karl skrifaði árið 2010 í tilefni óvæginnar umfjöllunar í hans garð, þar sem hann var meðal annars sakaður um að koma eignum í skattaskjól sem „sé uppspuni og lygi frá rótum“.  En málið í dag varðar einmitt eignir sem Karl Emil stakk undan eigin þroti yfir í skattaskjól.

Með eitt stærsta gjaldþrot Íslandssögunar á bakinu

Karl Emil varð gjaldþrota í apríl árið 2018 og var bú hans þá tekið til gjaldþrotaskipta að beiðni þrotabús Milestone ehf. Skiptastjóri tilkynnti á fyrsta skiptafundi að búið væri nær eignalaust, en lýstar kröfur námu tæpum 13,6 milljörðum.

Þrotabúið segir ljóst að Karl Emil var einn stærsti eigandi Milestone, og auk þess stjórnarmaður, en félagið var lýst gjaldþrota árið 2009 og líklega er um að ræða eitt stærsta gjaldþrot Íslandssögunnar þar sem lýstar kröfur námu rúmlega 95 milljörðum. Sökum umfangs sé skiptum Milestone ólokið, en líklegt þykri að lítið sem ekkert fáist upp í kröfurnar. Því skipti máli að sækja kröfur inn í þrotabú Karls, en þar er Milestone stærsti kröfuhafi með lýsta kröfu að fjárhæð tæplega 13,6 milljörðum.

Síðustu árin fyrir gjaldþrotið hafi Karli Emil ítrekað verið stefnt fyrir dóm. Skattar hans endurákvarðaðir og hækkaðir gríðarlega. Eftir sat Karl Emil skuldum vafinn og ógreiðslufær. Hins vegar hafi hann samtímis afsalað markvisst öllu sem hann átti til nákominna aðila, þó svo að hann fari enn sjálfur með umráð eignanna. Meðal annars hafi Karl Emil afsalað einkahlutafélaginu Toska til sonar síns, Jóns Hilmars Karlssonar, en Toska er móðurfélag eignasamstæðu sem tilheyrði áður Karli Emil. Þessari ráðstöfun var rift með dómi Héraðsdóms Reykjaness í október 2022, en málið er í áfrýjunarferli.

Sambýliskonan, skattaskjólið og Tortóla

Svo framseldi Karl Emil í mars 2018 hluti sína í aflandsfélaginu Nordic Pharma Investment Ltd (NPI) til sambýliskonu sinnar, Gyðu, án þess að fá nokkuð fyrir það greitt. Félagið er staðsett í hinni sögufrægu skattaparadís Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Þetta hafi Karl Emil gert þremur vikum áður en úrskurður um gjaldþrotaskipti var kveðinn upp.

Skiptastjóri þrotabús hafi í kjölfarið sent tilkynningu til Héraðssaksóknara um að Karl Emil hafi mögulega skotið eignum undan gjaldþrotinu. Þetta átti ekki eftir að verða seinasta tilkynningin og hefur Héraðssaksóknari meint brot Karls til rannsóknar í fjölda mála sem tengjast þrotabúinu. Það var þó ekki fyrr en nýlega sem upp komst um framsalið á NPI.

Lögmaður Karls Emils hafi svo lýst tæplega 800 milljóna kröfu í þrotabú Háttar ehf. árið 2020, en til stæði að úthluta upp í þá kröfu. Þessu frétti skiptastjóri þrotabús Karls Emils af og hafði umsvifalaust samband til að krefja Karl Emil svara um hvort hann hefði átt Hátt ehf. og hvort hann ætti það nokkuð enn. Skiptastjóri fékk svo upplýsingar um NPI í febrúar 2021 þegar hann fékk send gögn frá Offshore Leaks Database.

Karl sagðist ekki eiga félagið

Lögmaður Karls sagði af og frá að Karl Emil ætti NPI, eða hefði átt þegar úrskurður um gjaldþrotaskipta var kveðinn upp. Félagið væri þar að auki algjörlega eignalaust og ekki verið starfandi um langt skeið. Þessu mótmælti skiptastjóri enda hafði hann heimildir fyrir því að Karl hafi verið hluthafi og að félagið væri hreint ekki eignalaust. Eigandi NPI er Gyða Hjartardóttir og hún steig fram til að gera kröfu fyrir hönd NPI í þrotabú Háttar.

Upp hófust deilur sem lauk svo að Gyða og þrotabúið gerðu með sér samkomulag, sem byggði á þeirri forsendu að NPI væri eignalaust. Gyða hafi þó greitt sér út arð í trassi við samkomulagið og svo hafi skiptastjóri verið upplýstur um að NPI sæti í reynd á verulegum eignum. Meðal annars eigi félagið skuldabréf á Toska ehf, og ljóst að skuldabréfaeign nemur mörg hundruð milljónum.

Segir skiptastjóri þb. Karls Emils að ljóst sé að nokkrum dögum fyrir þrot hafi Karl stungið undan minnst 350 milljónum með því að koma eignum yfir á Gyðu án þess að nokkur greiðsla kæmi fyrir. Til að fela þetta hafi Gyða og Karl beitt lygum og blekkingum. Ljóst sé að forsendur samkomulags þrotabúsins og Gyðu séu brostnar. Karl Emil hafi séð fram á gjaldþrot sitt og byrjað á því að framselja Toska ehf. fyrir gjafaverð til sonar síns. Síðan hafi hann framselt nær allar eignir sem hann átti eftir til félaga félaga sem voru neðar í eignasamstöðu hans. Svo sem félög á borð við Faxa ehf og Faxar ehf. Rétt fyrir gjaldþrot hafði hann aðeins fáeinar milljónir á bankareikningi sínum, en þann pening tók Karl Emil út í seðlum. Hann seldi líka bíl og tókst að eyða kaupverðinu áður en gjaldþrotið skall á. Loks hafi hann framselt hlutina í NPI.

Ekki trúverðugt að Gyða sé grandlaus

Ljóst sé að Gyða telst nákominn Karli í skilningi laga um gjaldþrotaskipti, enda sambýliskona hans og unnusta síðan minnst 2014. Karl Emil hafi ekki verið borgunarmaður af eigin skuldum þegar hann framseldi félagið, og þar að auki meðvitaður um yfirvofandi þrot. Gyða geti ekki talist grandlaus. Skiptastjóra reiknast til að skuldabréfaeign NPI nemi um 527 milljónum. Skiptastjóri tók fyrir mögulegar varnir Gyðu um að eignin hafi verið til að fullnægja daglegum þörfum þrotamanns. Skiptastjóri krafðist þess því að fá öllum hlutum í NPI skilað inn í þrotabúið, og það án þess að Karl og Gyða tættu af félaginu allt kjötið. Krafðist hann þess eins að Gyðu yrði gert að greiða dagsektir upp á 5 milljónir á dag, þar til hún hefur skilað félaginu. Þetta sé réttlætanlegt þar sem NPI er á Tortóla þar sem erfitt er að átta sig á verðmæti þess. Liggja þó fyrir upplýsingar um að Karl Emil hafi greitt sér um 1,15 milljarð úr félaginu á árunum 2006-2008. Til vara var þess krafist að Gyða endurgreiddi þrotabúinu andvirði skuldabréfaeignar NPI.

Gyða hafnaði því að samkomulagið við þrotabúið væri úr sögunni, en þetta samkomulag hafi átt að vera endanlegt uppgjör hvað NPI varðaði. Sjálf viti hún ekki hvort það séu eignir í félaginu eða ekki, og taldi hún skiptastjóra ekkert hafa sannað. Hún hafi ávallt staðið í þeirri trú að félagið væri eignalaust þegar það var framselt henni. Sakaði hún skiptastjóra um dónaskap og sagðist sjálf ávallt hafa gætt kostgæfni og kurteisi í samskiptum. NPI hafi ekki verið með starfsemi í lengri tíma og því breyti engu þó hún sé unnusta Karls. Hún hafi ekkert grætt á þessum gerningi. Þar að auki hljóti krafan á hendur henni að vera fyrnd. Það sé Karl sem stundi viðskipti, en ekki hún þannig hún viti ekkert hvernig svona mál gangi fyrir sig.

Klárt undanskot og 2 milljónir í dagsektir

Dómari rakti að NPI væri aflandsfélag sem var stofnað á Tortóla. Framsalið til Gyðu hafi farið fram eftir frestdag gjaldþrotaskiptanna og rétt áður en búið var tekið til skipta. Karl Emil upplýsti skiptastjóra ekki um þennan gjörning. Skýrt hafi komið fram í samkomulagi þrotabús og Gyðu að skiptastjóri áskildi sér að rifta samningi ef forsendur breyttust, svo sem ef félagið sæti á fleiri eignum. Óundirritaðir ársreikningar sem Gyða lagði fram fyrir dómi hafi ekkert gildi, enda hafi vitni lýst því að hafa útbúið ársreikninga að beiðni Karls Emils og sé vitnið í þokkabót endurskoðandi Toska ehf en ekki NPI. Endurskoðandi hafi skrifað inn á ársreikning að forsendur byggðust aðeins á upplýsingum frá stjórnendum og gögnum sem hafi verið lögð fram, en ekki sjálfstæðri skoðun.

Ekki tók dómari Gyðu trúanlega um að hún hafi verið grandlaus. Hún sé sambýliskona Karls, og hljóti að hafa vitað um eignir NPI. Auk þess hafi hún mátt gera sér grein fyrir að samkomulagið héldi ekki andspænis virði NPI þegar það var afhjúpað. Gyða hafi vel vitað að Karl var á leið í þrot þegar hún tók við NPI án þess að greiða krónu fyrir. Ljóst sé að þetta hafi aðeins verið gert til að skjóta eignum undan þrotinu og þar með hafi kröfuhafar Karls Emils beðið tjón.

Gyðu var því gert skylt að skila NPI til þrotabúsins, að viðlögðum dagsektum sem nema 2 milljónum á dag, en þær falla á eftir mánuð. Hún þarf einnig að greiða þrotabúinu tæpar 7,5 milljónir í málskostnað. kostnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Skarphéðinn stígur til hliðar sem dagskrárstjóri RÚV

Skarphéðinn stígur til hliðar sem dagskrárstjóri RÚV
Fréttir
Í gær

Verslunarstjóri ákærður fyrir nauðgun á fötluðum undirmanni sínum og tveimur andlega fötluðum ungmennum

Verslunarstjóri ákærður fyrir nauðgun á fötluðum undirmanni sínum og tveimur andlega fötluðum ungmennum
Fréttir
Í gær

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“
Fréttir
Í gær

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“