Þann 10. janúar næstkomandi verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness mál gegn konu úr Reykjanesbæ, sem ákærð er fyrir tvær árásir á lögreglumenn, með árs millibili.
Konan er fædd árið 2001 en fyrra atvikið sem hún er ákærð fyrir átti sér stað í apríl árið 2022, á Laugavegi við Nóatún í Reykjavík. Hún er sögð hafa opnað ökumannsdyr bíls sem hún var ökumaður í, kröftuglega með fæti sínum og veit lögreglumanni við skyldustörf þannig þungt högg á hægri fót með þeim afleiðingum að hann fann til í hægra hné. Stúlkan er sögð hafa gert þetta af ásetningi.
Síðara atvikið sem ákært er fyrir átti sér stað í lok apríl 2023, á Njarðarbraut við Nesvelli í Reykjanesbæ. Stúlkan er sögð hafa veist með ofbeldi að lögreglumanni við skyldustörf og sparkað tvisvar í fætur hans.
Meint brot ungu konunnar eru sögð varða við 106. grein almennra hegningarlaga, en hún er svohljóðandi:
„Hver, sem ræðst með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því, og eins hver sá, sem á sama hátt leitast við að hindra framkvæmd slíks starfa eða neyða starfsmanninn til þess að framkvæma einhverja athöfn í embætti sínu eða sýslan, skal sæta … 1) fangelsi allt að 6 árum. [Ef brot samkvæmt þessari málsgrein beinist að opinberum starfsmanni, sem að lögum hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, má beita fangelsi allt að 8 árum.] 2) [Beita má sektum, ef brot er smáfellt.] 3)“