Lögmaðurinn Sævar Þór Jónsson hefur nú brugðist við harðri gagnrýni fyrrum hæstaréttardómara, Jóns Steinars Gunnlaugssonar, á fréttaflutning RÚV um helgina. Um er að ræða viðtal við Viktoríu Þórunni Kristinsdóttir sem varð fyrir ofbeldi í nánu sambandi, en geranda hennar var ekki gerð refsing þrátt fyrir að vera fundinn sekur um grófar hótanir í hennar garð, ofbeldi, ógnandi framkomu og andlegt ofbeldi. Var talið að refsing myndi ekki hafa áhrif sökum andlegra veikinda gerandans, en Viktoría telur að þarna hafi dómskerfið tekið meira tillit til ofbeldismannsins en til brotaþola.
Jón Steinar gagnrýndi að RÚV hafi í engu minnst á forsendur dómara fyrir því að gera manninum ekki refsingu. Velti hann því fyrir sér hvernig ríkismiðill gæti réttlætt svona viðtal án þess að þar væri farið yfir forsendur dómsins.
„Flestir þeirra sem hlustuðu á þessa furðulegu frétt hafa sjálfsagt talið að mannvonsku dómarans hafi verið um að kenna að manninum var ekki refsað. Er fréttamönnum óskylt að kynna sér málin sem þeir segja fréttir af í því skyni að geta gefið afar ranga mynd af þeim? Ætli þetta falli undir það sem nefnt hefur verið æsifréttamennska? Væri ekki nær að fréttastofa sem rekin er af sjálfu ríkisvaldinu leitist að minnsta kosti við að veita réttar og hlutlausar upplýsingar frekar en að afbaka þær eins og hér var gert?“
Dómkvaddur geðlæknir hafi komist að þeirri niðurstöðu að maðurinn hafi verið um langa hríð með einkenni geðveiki sem gerðu hann ófæran um að hafa stjórn á því ofbeldi sem hann beitti. Hann hafi verið fárveikur og refsing ekki til þess fallin að gera honum gagn, heldur myndi það frekar valda skaða. Maðurinn sé í reglulegu eftirliti og taki virkan þátt í flókinni lyfjameðferð til að halda viðvarandi geðræðum vandamálum í skefjum.
Sævar rekur í pistli sem hann birti hjá Vísi að viðtalið sem RÚV birti hafi verið í ætt við umfjöllun af mannlegum toga, eða það sem á ensku kallast human insterest story. Jón Steinar sé með gagnrýni sinni að slá ryki í augu lesenda og beina sjónum þeirra frá því sem raunverulega var fjallað um – sem sé bágborin staða brotaþola í réttarvörslukerfinu.
„Þótt Hæstaréttardómarinn fyrrverandi hafi séð sig knúinn til þess að taka upp hanskann fyrir fyrrverandi kollega og benda á forsendur þess að refsing var ekki dæmd, þá finnst mér það ekki vera aðalatriðið. Dómarinn dæmir eftir lögunum en álitaefnið er hvort lögin séu rétt og sanngjörn. Eða nánar tiltekið í þessu tilviki hvort réttarstaða brotaþola, einkum í ofbeldis- og kynferðisbrotum, sé nægilega tryggð í núgildandi lögum.“
Það sé þekkt að sakborningar eigi sér mannréttindi til að tryggja með sanngjarna málsmeðferð. En þessar reglur einblýni á réttarstöðu sakborningsins. Þolendur hafi ekki sömu stöðu.
„Staða þeirra er takmörkuð og sýnir aðstöðu þeirra oft lítinn skilning. Brotaþolar eru ekki aðilar að sakamáli og njóta þar af leiðandi ekki sömu réttinda og sökunautur. Brotaþoli hefur ekki sama rétt til aðgangs að gögnum málsins, hann má heldur ekki tjá sig munnlega fyrir dómi um kröfur ákæruvaldsins og hendur hans er að mestu leyti bundnar við einkaréttarlega kröfur hans, hafi hann þær á annað borð uppi.“
Brotaþolar hefi lítið um það að segja hvort ákæra verði gefin út, eða hvort sýknudómi sé áfrýjað. Brotaþolar upplifi að þeir hafi lítið vægi þó um sé að ræða atvik úr lífi þeirra sjálfra sem hafi haft áhrif á líf og heilsu þeirra.
„Þolandinn er vanmáttugur og bjargráðalaus. Ekki bætir úr skák að miskabætur til handa brotaþolum eru afar lágar hér á landi. Upplifun brotaþola getur því stundum verið sú að þeir séu afgangsstærð í réttarvörslukerfinu og þeir upplifa hvorki sanngirni né að réttlætið hafi náð fram að ganga.“
Sævar bendir á að ofangreint hafi áður komið til umræðu og hafi stjórnvöld stefnt á úrbætur til að bæta upplifun og aðkomu brotaþola að málum sem varða þeirra hagsmuni. Brýnt sé að handa þeirri vinnu áfram enda eigi lög að tryggja réttlæti og traust almennings til dómstóla sem haldist í hendur við það hversu sýnilegt réttlætið er í framkvæmd.