Sky News skýrir frá þessu og segir að Igor Sofonov og Maxim Bochkarev hafi lagt upp í blóði drifna ferð um bæinn að kvöldi 1. ágúst. Þeir voru undir áhrifum fíkniefna og áfengis þegar þeir lögðu upp í þessi blóði drifnu ferð.
Fyrst fóru þeir inn í hús eitt þar sem þeir stungu 71 árs mann og son hans til bana. Þremur öðrum börnum mannsins tókst að flýja og gera lögreglunni viðvart. „Faðir minn átti ekki skilið að deyja svona. Við erum úr góðri fjölskyldu. Svona átti hann ekki að deyja,“ sagði Irina Zhamoidina, dóttir mannsins, í samtali við Sky News og bætti við: „Mín skoðun er að allir þeir sem hafa verið í fangelsi eigi að fara aftur í það þótt þeir hafi verið í stríði. Þeir eiga ekki að búa innan um okkur hin, því þá gerast hlutir eins og þessir.“
En Sofonov og Bochkarev létu ekki hér við sitja því þeir kveiktu í húsinu og héldu síðan áfram för sinni. Þeir fóru inn í annað hús og myrtu alla íbúa þess, þrjá karla og eina konu.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem heimkomnir hermenn myrða fólk í Rússlandi. Fyrr á árinu myrti Ivan Rossomakhin, sem er 28 ára, 85 ára konu í bænum Novy Burets.