Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir konunni að hún hafi fengið skot í fingur. Aðspurð um líðan hennar sagði hún hana að minnsta kosti vera betri núna en áður. Hún sé farin að sofa betur og hætt að fá „ógeðslegar“ martraðir en sé enn hvekkt og verði skelkuð ef hún heyrir óvænta skelli.
Hinn látni var meðlimur í glæpagenginu Hell‘s Angeles en lögreglan telur að skotárásin tengist átökum Hell‘s Angels og glæpagengisins Loyal to Familia.
Konan fór til Danmerkur í sumarfríinu sínu til að heimsækja bróður sinn sem býr þar. Þau ákváðu að heimsækja Kristjaníu laugardagskvöldið 26. ágúst en þangað hafði konan aldrei komið.
Klukkan 19.25 var lögreglunni tilkynnt um skotárásina og sagði konan að mennirnir hefðu skotið að minnsta kosti 30 skotum og hafi hún í fyrstu haldið að um flugelda eða eitthvað slíkt væri að ræða. Hún sagði að mennirnir hafi skotið í allar áttir og hún hafi verið útötuð í blóði, ekki bara sínu eigin.