Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, fer hörðum orðum um viðtal sem RÚV birti á sunnudagskvöld við Viktoríu Þórunni Kristinsdóttur, sem varð fyrir ofbeldi í nánu sambandi. Jón Steinar telur viðtalið vera einhliða og þar ekki gerð nein grein fyrir forsendum dóms sem Viktoría gagnrýnir í viðtalinu.
Héraðsdómur Reykjavíkur gerði manninum sem beitti Viktoríu ofbeldi ekki refsingu vegna veikinda hans. DV fjallaði um dóminn þann 21. ágúst. Þar segir:
„Þann 18. ágúst síðastliðinn var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjaness yfir manni sem sakaður var um stórfellt brot í nánu sambandi gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni á tímabilinu 1. janúar 2018 til 17. maí 2020. Var maðurinn sakaður um að hafa ítrekað, endurtekið og á alvarlegan og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt ógnað lífi, heilsu og velferð konunnar með hótunum um líkamsmeiðingar, m.a. með því að brjóta á henni lappirnar, henda henni niður stiga, brjóta á henni höfuðkúpuna og segja henni ítrekað að hann gæti meitt hana.
Maðurinn var meðal annars ákærður fyrir að hafa tekið konuna hálstaki, hrint henni, haldið henni niðri og hótað að höfuðkúpubrjóta hana. Einnig hafi hann í annað skipti tekið um háls hennar og úlnliði og haldið henni uppi við vegg þegar hún gekk með barn þeirra, og slegið hana utan undir.
Maðurinn var sakaður um að hafa ítrekað hótað konunni og kallað hana illum nöfnum, skoðað síma hennar og samfélagsmiðlareikninga hennar án hennar vitundar eða leyfis, bannað henni að fara út nema í fylgd hans og ógnað henni með því að brjóta innanstokksmuni, sjónvarp, myndir og glerdiska. Hann kýldi í gegnum vegg, kastaði öskubakka í parket. Hann var sakaður um að hafa notað fjármuni konunnar og sagt við hana á meðan hún gekk með barn þeirra að ófætt barnið væri sæðisköggull sem hann gæti tekið frá henni.“
Á meðan réttarhöldum stóð var kvaddur til geðlæknir til að leggja læknisfræðilegt mat á ástandi mannsins. „Niðurstaða læknisins var að hinn ákærði hefði frá ársbyrjun 2018 haft nánast stöðug einkenni um geðveiki sem gerðu hann ófæran um að hafa stjórn á því ofbeldi sem hann var ákærður fyrir,“ sagði í frétt DV. Maðurinn játaði sök en var úrskurðaður ósakhæfur.
Viktoría segir í viðtali við RÚV að dómskerfið taki meira tillit til ofbeldismanna en brotaþola. Hún segir að henni finnist dómsniðurstaðan hafa réttlætt ofbeldi mannsins gagnvart henni:
„Allt þetta sem hann gerði við mig, sem hann gerði við son minn og gerði mömmu minni, allt sem hann var búinn að láta mig ganga í gegnum, þetta var bara í góðu af því að hann er svo veikur. En hversu veikur getur þú verið þegar þú getur verið í vinnu, og ert innan um annað fólk og þú ert bara eðlilegur, en síðan þegar þú kemur heim þá er ég bara boxpúðinn þinn,“ segir Viktoría. „Hann veit alveg hvað hann er að gera.“
Hún furðar sig einnig á því að maðurinn hafi ekki verið dæmdur til vistar á viðeigandi stofnun fyrst hann var talinn ósakhæfur.
Jón Steinar segir í pistli á Facebook að viðtal RÚV við Viktoríu minni á æsifréttamennsku. Gagnrýnir hann RÚV sérstaklega fyrir að hafa ekki minnst á forsendur dómsins yfir manninum:
„Hvernig getur fréttastofa ríkisútvarpsins sagt frétt þar sem sérstaklega er fjallað um refsiákvörðun dómarans án þess að víkja einu orði að forsendum dómsins fyrir því að felld sé niður refsing á hendur manninum eins og skylt var samkvæmt lögum? Flestir þeirra sem hlustuðu á þessa furðulegu frétt hafa sjálfsagt talið að mannvonsku dómarans hafi verið um að kenna að manninum var ekki refsað. Er fréttamönnum óskylt að kynna sér málin sem þeir segja fréttir af í því skyni að geta gefið afar ranga mynd af þeim? Ætli þetta falli undir það sem nefnt hefur verið æsifréttamennska? Væri ekki nær að fréttastofa sem rekin er af sjálfu ríkisvaldinu leitist að minnsta kosti við að veita réttar og hlutlausar upplýsingar frekar en að afbaka þær eins og hér var gert?“
Jón Steinar rifjar upp forsendur dómsins og vitnar beint í dómsorð þar sem gerð er grein fyrir því hvers vegna maðurinn var ekki talinn sakhæfur:
„Undir rekstri málsins var X geðlæknir dómkvaddur til að framkvæma geðrannsókn á ákærða og leggja læknisfræðilegt mat á hvort andlegt ástand ákærða hafi verið með þeim hætti að hann teljist sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga og ennfremur hvort fangelsisrefsing geti borið árangur í skilningi 16. gr. sömu laga. Er skemmst frá því að segja að matsmaður telur að ákærði hafi frá ársbyrjun 2018 haft nánast stöðug einkenni um geðveiki sem gerðu hann alls ófæran um að hafa stjórn á því ofbeldi sem hann er ákærður fyrir á ákærutímabilinu. Þá hafi ákærða frá vetri 2020 versnað enn frekar og hann verið fárveikur 17. maí 2020 við lok lýsts ákærutímabils. Þá telur matsmaður útilokað að refsing í formi fangelsisvistar geti gert ákærða minnsta gagn og líklegt að slík refsing yrði honum skaðleg. Loks telur matsmaður að ekki sé ástæða til að gera frekari ráðstafanir til að hindra að samfélagslegur skaði verði af ákærða, enda sé hann nú í föstu og reglulegu eftirliti hjá Y, sem og hjá geðlækni og taki virkan þátt í flókinni lyfjameðferð til að halda viðvarandi, geðrænum vandamálum í skefjum.“