Þann 13. september var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur mál sem héraðssaksóknari hefur höfðað gegn manni sem sakaður er um brot gegn þremur stúlkum. Þinghöld í málinu verða lokuð.
Ákæra sem DV hefur undir höndum er hreinsuð af nöfnum, aldri og staðsetningu, en þó er ljóst að brotin áttu sér stað í Reykjavík. Sunnudaginn 17. janúar árið 2021 er maðurinn sagður hafa brotið gegn stúlku í anddyri húss í Reykjavík. Sagði hann við stúlkuna að hún væri falleg, tók í hönd hennar kyssti hönd hennar og eftir að stúlkan hafði komið sér undan spurði hann hana hvort þau ættu að gera „þetta“ á eftir.
Þann 26. júní árið 2022 braut maðurinn gegn stúlku fyrir utan útnefnt hús. Greip hann um rass hennar utanklæða og kreisti hann.
Þann sama dag er maðurinn sagður hafa, inni í ótilgreindu húsi, brotið gegn þriðju stúlkunni, en hann greip um kynfærasvæði hennar utanklæða.
Brot mannsins eru sögð varða 2. málsgrein 202. greinar almennra hegningarlaga, en þar segir að kynferðisleg áreitni gegn barni eldra en 15 ára geti varðað allt að fjögurra ára fangelsi.
Héraðssaksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fyrir hönd einnar stúlkunnar er krafist þriggja milljóna króna í miskabætur.