fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Pútín gæti hafa gert sömu mistök og Hitler

Ritstjórn DV
Mánudaginn 5. júní 2023 04:15

Pútín hefur verið líkt við Hitler í mótmælum víða um heim. Mynd:EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hugsanlega hefur Vladímír Pútín gert sömu mistök og Adolf Hitler gerði á sínum tíma. Það gæti reynst honum dýrkeypt.

Þetta kemur fram í umfjöllun Sky News sem segir að Pútín telji Kyiv, höfuðborg Úkraínu, vera lokamarkmiðið í stríðinu í Úkraínu og því hafi Rússar bætt í flugskeyta- og drónaárásir sínar á höfuðborgina. En úkraínskum loftvarnarsveitum hefur að mestu tekist að verjast þessum árásum.

Í umfjölluninni kemur fram að með þessu hafi Pútín sýnt að hann láti tilfinningar sínar ráða frekar en hernaðartækni. Það geti reynst dýrkeypt mistök að nota takmarkaðar flugskeytabirgðir til árása á almenna borgara í Kyiv.

Í sögulegu samhengi þá hafa stríð verið háð til að eyðileggja heri óvinanna og hertaka höfuðborgir þeirra. Pútín virðist einblína á að gera út af við getu Úkraínumanna til að berjast gegn rússneska innrásarliðinu og að ná Kyiv á sitt vald með því að gera loftárásir á borgina. Í umfjöllun Sky News er þeirri spurningu velt upp hvort þessi aðferðafræði muni hjálpa Rússum að ná markmiðum sínum eða hvort þetta séu bara aðgerðir reiðs og pirraðs einræðisherra?

Margir hernaðarsérfræðingar eru þeirrar skoðunar að markmiðið með innrás Rússa sé að tryggja yfirráðin yfir Krím og að ná Donbas á sitt vald.

Bardagar síðustu mánaða náðu hámarki í orustunni um Bakhmut og þar sem Rússar hafa nú náð bænum á sitt vald, að minnsta kosti að mestu leyti, ættu þeir að nýta sér „stórveldisgetu“ sína til að ráðast á birgðalínur Úkraínumanna og undirbúning þeirra undir yfirvofandi sókn.

Úkraínumenn eiga erfitt með að leyna hernaðarundirbúningi sínum fyrir rússneskum gervihnöttum og þess utan eru Rússar væntanlega með fjölda njósnara í Úkraínu sem veita þeim upplýsingar í rauntíma um hreyfingar úkraínska hersins.

En í staðinn fyrir að gera þetta beinir Pútín kröftum, og flugskeytum hersins, að árásum á Kyiv.

Er þeirri spurningu velt upp hvort hann sé að gera sömu mistök og Hitler gerði í síðari heimsstyrjöldinni. Hvort stjórnmálamaðurinn Pútín, sem hefur enga hernaðarreynslu, sé að gera sömu mistökin og Hitler.

Þá voru nasistar að undirbúa innrás í Bretland en áður en af henni yrðu þurfti að gera út af við breska flugherinn (RAF). Orustan um Bretland, sem var háð í lofti, gerði næstum út af við RAF en Hitler var svo reiður út af sprengjuárásum bandamanna á þýskar borgir að hann létti þrýstingnum af RAF og beindi sjónum sínum að Lundúnum.

Þetta þykir hafa verið órökrétt ákvörðun en hún gerði RAF kleift að rísa upp og leggja sitt af mörkum við að snúa gangi stríðsins.

Veltir Sky News því upp hvort samsvörun sé á milli ákvörðunar Hitler og ákvörðunar Pútíns um að beina kröftum rússneska hersins að Kyiv og segir að svo sé. Hann hafi látið tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur og taka völdin fram yfir hernaðartækni. Til dæmis með ákafanum í að ná Bakhmut á sitt vald til að geta stært sig af því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“