DV hefur fengið ábendingar þessa efnis að mikil óánægja sé meðal margra sjúkraflutninga- og slökkviliðsmanna á útfærslu styttingar vinnuvikunnar sem tók gildi hjá flestum í október síðastliðnum. Fullyrt er að dæma finnist um allt að 100 þúsund króna launalækkun en það er óstaðfest.
DV hafði samband við Róbert Ægi Hrafnsson, trúnaðarmann hjá Sökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Róbert þekkir vel til málsins sem hann segir flókið og snúið, langan tíma taki að sjá heildarmyndina á útfærslunni.
„Þettaa er gríðarlega flókið og það var ekki bara einhver einn sem skrifaði undir þetta. Þetta er enn í skoðun hjá okkur varðandi launalækkun. Slökkviliðið er búið að reikna þetta fram og til baka og þau vilja meina að við séum ekki að lækka. En stóri munurinn á þessu kerfi og kerfinu sem við vorum með er sá að þá vorum við á meðaltalslaunu, fengum bara sömu laun allt árið. En þegar við skiptum yfir í styttinguna þá fóru menn að fá mismunandi greitt fyrir mismunandi vaktir. Slökkviliðið vill meina að þetta komi eins út í heildina en þetta er stór breyting fyrir stóran hluta mannskaparins í liðinu.“
Róbert segir að slökkviliðið telji að heildarlaunin séu svipuð og áður þó að laun geti núna verið breytileg milli mánaða. Þessu eru ekki allir starfsmennirnir sammála.
„Það hefur verið gríðarleg óánægja hjá okkur en það eru þó ekki allir óánægðir. Þetta eru stærstu breytingarnar á störfum okkar frá því 12 tíma kerfið tók við einhvern tíma í kringum 1980. Þetta eru risabreytingar. Það eru allar vaktir stokkaðar upp.“
Aðspurður segir Róbert að honum líki persónulega vel við nýja fyrirkomulagið. „Við fórum úr því að vinna alltaf 12 tíma vaktir í að vinna þrískiptar vaktir sem eru stundum 12 tíma og stundum styttri. Mér persónulega finnst þetta mjög fínt en ef þú spyrð 20 manns í liðinu færðu 20 ólík svör. Sumum finnst þetta hræðilegt og öðrum fínt.“
„Það eru mismunandi skoðanir, ég myndi segja að meirihlutinn væri óánægður en alls ekki allir. Það eru lausir kjarasamningar í september og þessi mál eru bara öll í vinnslu hjá okkur, vonandi náum við fram æskilegum breytingum í rétta átt. En það er eðlilegt að einhver óánægja verði þegar við erum að fara í gegnum stærtu breytingar í sögu slökkviliðsins. Fólk hafði kannski verið á sömu vaktinni í 20 ár og fer núna á nýja vakt með nýjum mannskap. Það tekur tíma fyrir alla að ná vöktum og vinna úr þessu.“
DV ræddi einnig við Bjarna Ingimarsson, formann Landsambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. „Sumstaðar er ánægja og sumstaðar er minni ánægja,“ segir Bjarni og bendir á að kerfið sé útfært sérstaklega á hverjum vinnustað fyrir sig. Útkoman virðist vera mismunandi. „Við erum núna í því að reikna út launin og það virðist vera einhver lækkun hjá ákveðnum hópum. Ýmislegt bendir til þess að þetta hafi í för með sér einhverjar kjaraskerðingu hjá einhverjum og við erum bara að skoða það og fara í útreikninga.“
Bjarni segir að útfærslan sé vissulega ekki fullkomin og margt megi laga. „Það er bara verkefni næstu ára að búa þannig um hnútana að þetta virki fullkomlega og það koma margir að því, t.d. fjármálaráðherrann sem hefur verið duglegur að tala um styttingu vinnuvikunnar hjá ríkinu.“
Bjarni segist sjálfur sáttur. „Ég tók þátt í þessari vinnu á mínum vinnustað og er alveg sáttur við kerfið sem kom út úr þessu. En launamyndunarkerfið er nokkuð stíft og ekki hægt að gera hvað sem er, það þarf að laga launamyndunarkerfið í næstu kjarasamningum, finna lausnir sem henta hverjum vinnustað, en ekki hafa þetta þannig að það sé verið að þvinga vinnustaði í ákveðnar lausnir eða útfærslur.“
Bjarni segir eðlilegt að menn sem lækka í launum séu óánægðir með það. „Það er auðvitað ekki gott ef menn eru að lækka í launum, það var tekið fram í allri vinnunni að menn ættu ekki að verða fyrir kjaraskerðingum. En það er í þessu endurskoðunarákvæði og þetta var sett upp sem tilraunaverkefni.“ Segir Bjarni að hægt sé að endurskoða útfærsluna á hverjum stað einu ári eftir að hún tekur gildi.
Hann segir að stytting vinnuvikunnar sé afar flókin í útfærslu. „Þetta er illskiljanlegt nema menn leggist í þetta. Það þarf mikla vinnu til að koma sér inn í þessi mál og skilja þau. En í grunninn þyrfti að vera meiri möguleiki á útfærslum í launamyndun þannig að þetta henti hverjum vinnustað fyrir sig.“