fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Bílþjófnaður og brjálaður akstur konu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 21. maí 2023 18:55

Mynd: Hari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona um þrítugt hefur verið ákærð fyrir hættubrot, umferðarlagabrot og nytjastuld vegna atvika sem áttu sér stað í Reykjavík í febrúar árið 2020.

Samkvæmt ákæru héraðssaksóknara tók konan bíl ófrjálsri hendi á athafnasvæði í Samskipa að Kjalarvogi í Reykjavík og ók honum síðan með vægast sagt skrautlegum hætti. Bíllinn var án skráningarmerkja en konan sinnti ekki fyrirmælum lögreglu um að stöðva bílinn. Akstrinum er lýst svo í ákæru:

„…án þess að sinna fyrirmælum lögreglu um að stöðva bifreiðina sem gefin voru til kynna með forgangsljósum og hljóðmerkjum og eftir að eftirför lögreglu var hafin ekið án nægilegrar tillitssemi og varúðar gegn rauðum umferðarljósum og án þess að miða ökuhraða við aðstæður og virða hraðatakmarkanir, en ákærða ók vestur Sæbraut og sinnti ekki merkjum lögreglu um að stöðva bifreiðina og eftir að eftirför var hafin ekið á allt að 100 km/klukkustund, þar sem hámarkshraði var 60 km/klukkustund, ekið gegn rauðu umferðarljósi á gatnamótum Sæbrautar við Katrínartún, ekið gegn rauðu umferðarljósi við gatnamót Sæbrautar við Snorrabraut þar sem litlu mátti muna að hún æki á bifreið sem ekið var af Snorrabraut með akstursstefnu vestur Sæbraut, ekið áfram vestur Sæbraut og sveigt á milli akreina fram hjá öðrum bifreiðum, ekið gegn rauðu umferðarljósi á Kalkofnsvegi við Austurbakka, þar sem mikil hætta skapaðist vegna mikillar umferðar ökutækja og gangandi vegfarenda á háannatíma síðdegis, ekið bifreiðinni upp á gangstíg á Kalkofnsvegi við Hörpu og ekið gegn rauðu umferðarljósi á gangbraut sunnan við Hörpu þar sem mikið var að gangandi vegfarendum sem þurftu að hörfa snöggt frá bifreið ákærðu, ekið gegn rauðu umferðarljósi á Kalkofnsvegi við Geirsgötu, ekið eftir akrein sem ætluð er fyrir fólksflutningabifreiðar á Kalkofnsvegi sunnan við Geirsgötu, ekið gegn rauðu umferðarljósi á Kalkofnsvegi við Tryggvagötu, ekið gegn rauðu umferðarljósi á gatnamótum Lækjargötu við Bankastræti uns hún stöðvaði bifreiðina við hús við Lækjargötu 12 þar sem lögregla hafði afskipti af henni. Með akstrinum raskaði ákærða umferðaröryggi á alfaraleið og stofnaði lífi og heilsu annarra vegfaranda í augljósan háska með ófyrirleitnum hætti.“

Eins og kemur fram í ákærunni skapaðist mikil hætta fyrir gangandi vegfarandur af háttalagi konunnar en sem betur fer sakaði engan. Fyrirtaka er í málinu við Héraðsdóm Reykjaness mánudaginn 22. maí. Málið var hins vegar tekið fyrir áður í mars en hefur tafist af ókunnum ástæðum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt