fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Natalie og Þórir börðust fyrir hjónabandinu – „Ég fékk annað tækifæri hjá konunni minni og fór að vinna markvisst í mér“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 29. mars 2023 19:12

Þórir og Natalie Mynd: Samhjálp/Heiða Helgadóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórir Kjartansson og Natalie T. Narvaéz Antonsdóttur þurftu virkilega að berjast fyrir hjónabandi sínu eftir að alvarlegt áfall skók undirstöðu lífs þeirra um tíma. Þau eru komin fyrir vind eftir mikla sjálfsvinnu og saman rækta þau hvort annað og fjölskyldu sína. Saga Þóris er saga áfalla, einmanaleika, ótta og vanrækslu en líka upprisu, gleði og sigurs. Natalie aftur á móti var leitandi en fann réttu leiðina þegar hún sá leikrit í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu í Reykjavík og fann það sem hafði vantað í líf hennar.  

Steingerður Steinarsdóttir tók viðtal við hjónin fyrir páskablað Samhjálpar sem er nýkomið út. 

Þórir svaf oft í bílakjallara Ráðhúss Reykjavíkur þegar verst var komið fyrir honum. Í dag er hann húsvörður í því húsi og á í góðum samskiptum við borgarstjóra og aðra er vinna þar. En þegar honum leið verst hafði hann sætt sig við að örlög hans yrðu að búa á götunni.  

„Ég var kominn á þann stað í mínu lífi að ég var fastur í myrkrinu og í neyslu. Þetta líferni var farið að hafa mikil andleg áhrif á mig. Ég fór inn og út af geðdeild en þar fann ég öryggi um stund. Það var komið að þeim tímapunkti að ég hefði svipt mig lífi ef ég hefði þorað því. Mig langaði mest að eyða mér einhvern veginn því ég sá engan tilgang og eygði enga von um að ég gæti orðið edrú. Ég var ofboðslega reiður og bitur út í allt og alla. Ég kenndi í raun öllum öðrum um en sjálfum mér. Það er staða sem maður lendir oft í þegar maður er á þessum stað. Ég vissi bara ekki mitt rjúkandi ráð.“  

Þórir og Natalie
Mynd: Samhjálp/Heiða Helgadóttir

Kynntust í Samhjálp

„Ég var alltaf að þvælast í Samhjálp og Natalie kom þangað að vinna og ég tók á móti henni. Ég man að ég hugsaði; vá hvað hún er falleg,“ segir Þórir og horfir hlýjum augum á konu sína.  

En þér, Natalie, hvernig leist þér á hann? „Það var ekkert svoleiðis,“ segir hún brosandi. „Ég var bara að koma í vinnu og síst af öllu að hugsa eitthvað á þeim nótum. Ég hóf störf 2014 en kynntist Þóri svo sem ekki mikið. Hann kom reglulega við, en til að gera langa sögu stutta gerðist ekkert á milli okkar fyrr en í janúar 2017.“ 

„Ég var ekkert að pæla í þessu, en þegar ástin kviknar milli okkar var hann fluttur af áfangaheimilinu Brú í íbúð sem hann tók á leigu. Við fórum að hittast og ég ákvað bara að leita til Guðs með þetta. Ég vissi eitthvað um hann, alls ekki allt um fortíð hans. Hafði lesið viðtal við hann en sá bara hvað hann var búinn að vera duglegur og kominn vel af stað í lífinu. Hann var búinn að vera þrjú og hálft ár edrú þegar við fórum að vera saman. En ég þurfti vissulega að hugsa mig um hvort ég væri tilbúin í þetta samband. Svo kolféll ég fyrir honum,“ segir Natalie.  

„Ég var á mjög góðum stað andlega á þessum tíma,“ bætir Þórir við. „Ég vildi byrja allt upp á nýtt, læra allt upp á nýtt og losna við þær hömlur sem höfðu haldið aftur af mér áður. Eftir að við tókum saman var ég enn að vinna í Gistiskýlinu og það var farið að taka svolítið í, sérstaklega að vera á næturvöktum. Þá bauðst mér vinna í Ráðhúsinu, sem ég var hræddur við að taka því ég hafði hrærst svo lengi í að vinna með fólki með fíknisjúkdóma að þetta var of „heilbrigt“ – ég vissi ekki hvort ég myndi funkera þarna. En konan mín sagði: „Þetta er ekki spurning, þú tekur þessari vinnu og átt eftir að læra svo mikið þarna,“ og ég sé svo sannarlega ekki eftir því.“ 

Lamaður eftir vinnuslys  

Og þar hefur hann verið síðan. En lífið bauð enn og aftur upp á óvæntan snúning. Áfall sem setti allt úr skorðum um tíma.  

„Þetta hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Fyrir tveimur og hálfu ári lenti ég í rosalegu vinnuslysi. Ég féll niður um tvo og hálfan metra af stillans í Ráðhúsinu og var fluttur á gjörgæslu. Það var tvísýnt í byrjun hvort ég hefði lamast eða ekki því ég missti allan mátt í fótunum. Lá á gjörgæslu og gat ekki hreyft mig. Natalie og Sandra systir hennar komu upp á gjörgæslu og Natalie fékk rétt að hitta mig, ég gat ekki hreyft mig né talað við hana. Til mikillar blessunar fékk ég mátt í fæturna aftur daginn eftir, en mikið hafði verið beðið fyrir mér bæði hjá Samhjálp, í kirkjunum og á sjúkrahúsinu þar sem Natalie bað fyrir mér. Ég stóð bara upp daginn eftir. Ég hafði fengið svona rosalegt mænusjokk. Taugarnar höfðu lamast við sjokkið.“  

„Það fyrsta sem hann sagði við lækninn var: „Ekki gefa mér neitt eitur“,“ segir Natalie. Þóri var auðvitað efst í huga að ekki mætti vekja neina fíknivaka með verkjalyfjum.  

„Ég var kominn heim tveimur dögum seinna, en upp frá þessu hófst rosalegt tímabil hjá mér,“ segir hann. „Ég var mjög verkjaður í líkamanum og gat rétt svo gengið um gólf heima. Kvíði, vonleysi og reiði helltust yfir mig. Ég velti fyrir mér hvort ég kæmist út á vinnumarkaðinn aftur eða hvort af þessu hlytist varanleg örorka. Mér leið illa að kyssa konuna mína bless á hverjum morgni þegar hún var að fara í vinnuna og sonurinn í skólann og eftir sat ég einn heima, kvalinn af sársauka. Andlega hliðin hrundi. Ég var pirraður og reiður og ýmsir skapgerðarbrestir komu í ljós. Já, ég fór á virkilega slæman stað. Ég var kominn á fallbraut.“  

Þórir og Natalie
Mynd: Samhjálp/Heiða Helgadóttir

„Þakkaðu fyrir að þú getur gengið“  

„Þetta gerðist í október 2020,“ segir Natalie. „Ég var alltaf að segja honum: „Þórir, þakkaðu fyrir að þú getir gengið. Þú átt eftir að ná þér.“ Hann náði sér frekar fljótt, þ.e. að standa upp og svona, en hausinn á honum var bara ekki á réttum stað og hann var mjög verkjaður í líkamanum í mjög langan tíma. Hann fór aðeins að vinna um miðjan desember en krassaði alveg. Í janúar var hann sendur aftur í veikindafrí, fór aftur til vinnu of snemma, krassaði í annað sinn og fór aftur í veikindafrí. Brestirnir, reiðin og biturleiki brutust út. Þetta var rosalega erfiður tími og mér leist bara ekkert á hann stundum. Hann var hins vegar mjög passasamur með lyfin. Þeir vildu bara senda hann heim með alls konar lyf en hann tók það ekki í mál. Í rauninni kom gamli maðurinn upp, allt nema neyslan. Frá barnæsku og til þrjátíu og eitthvað ára var hans heimur neysla og blekking. Honum var ekki tamt siðferði og þolinmæði og þarna helltust yfir hann alls konar venjur og vondar leiðir út úr vandanum.“  

Ferlið sem Þórir lýsir er auðvitað ekkert nýtt. Fólk sem þjáist af áfallastreitu þekkir svona bakslög. Ný áföll vekja upp gömul og stundum þarf að byrja upp á nýtt að vinna úr vondum tilfinningum. En hvað varð Þóri til bjargar?  

„Ég fékk annað tækifæri hjá konunni minni og fór að vinna markvisst í mér. Hún á heiður skilinn fyrir hvernig hún tókst á við þetta tímabil. Ég fór til sálfræðings og þerapista. Tók sjálfan mig almennilega í gegn. Ég hef verið undanfarið ár hjá VIRK starfsendurhæfingu, vann með sjúkraþjálfara og kírópraktor og fór á AA-fundi og í ræktina. Ég gafst upp með báðum höndum og fór að leita Guðs, sem mætti mér á stórkostlegan hátt og ég er enn þar í dag. Ég fór að treysta og trúa því að ég gæti eignast og haldið í gott líf og skilaði skömminni, hún tilheyrir mér ekki lengur.“  

„Þetta gamla „ég kann ekki neitt, get ekki neitt, er ekki nógu góður“ var svo ríkt í honum, fórnarlambshlutverkið. „Af hverju ertu með mér?“ spurði hann oft. Við þurftum að fara í hjónabandsráðgjöf,“ segir Natalie og röddin brestur. „Þetta var ofboðslega erfiður tími. En ég gafst ekki upp. Trú mín var sterk. Ég var alltaf að hvetja hann og uppörva. Segja honum hvernig Guð sér hann. Að auðkenni hans þyrfti að vera í Guði, Hann er jú skaparinn. Eins og segir: „Ef einhver er í Kristi er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá nýtt er orðið til,“ (2.Kor. 5:17). Ég þurfti líka að horfa framhjá öllu því sem var í gangi. Guð sýndi mér hann eins og Hann sér hann og þá gat ég verið miskunnsöm og fyrirgefið og elskað hann til lífs. Eins og í byrjun sá ég alltaf þetta hjarta sem hann hafði og ég vissi að hann vildi ekki vera svona. Við fórum í massífa hjónabandsvinnu og að þrýsta okkur nær Guði og trúa því hver Hann segir okkur vera, ekki láta aðstæður og kringumstæður stjórna lífi okkar. Þá komst að kærleikur, heiðarleiki og virðing. Grunnurinn okkar var líka sterkur í sambandinu.”  

Viðtalið við Natalie og Þóri má lesa í heild sinni í páskablaði Samhjálpar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu