fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Fasteignaviðskipti ógilt með dómi eftir andlát – Sakaður um að notfæra sér veikindi og greindarskerðingu tvíburasystur sinnar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 28. mars 2023 19:00

Héraðsdómur Norðurlands eystra.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur fellt þann dóm að afsal látinnar konu á helmings eignarhlut í íbúð til tvíburabróður hennar skuli ógilt.

Eiginmaður konunnar, sem situr í óskiptu búi eftir lát hennar, stefndi tvíburabróðurnum, krafðist þess að afsalið yrði ógilt, en til vara að verð á 50% eignarhlut í íbúðinni yrði hækkað úr 7 milljónum króna upp í 14 milljónir.

Krafan byggði annars vegar á því að konan hefði ekki verið í andlegu ástandi til að eiga í fasteignaviðskiptum þegar kaupin áttu sér stað árið 2020, þar sem hún var með einhverja greindarskerðingu vegna höfuðhöggs á barnsaldri, en einnig vegna veikinda á þessum tíma sem fóru vaxandi.

Í málsástæðukafla stefnanda, eiginmanns konunnar, segir um þetta:

„Stefndi, bróðir D, hafi vitað eða mátt vita að hún væri ekki til þess bær að skilja umrædd viðskipti. Óheiðarlegt sé af honum að afla sér fjárhagslegra hagsmuna frá systur sinni vitandi að hún þekkti ekki hvað væri eðlilegt verð fyrir eignarhlutinn. Stefndi geti því ekki borið fyrir sig afsalið og fella beri það úr gildi.“

Hins vegar var tekist á um hvort kaupverðið hefði verið eðlilegt. Systkinin bjuggu fyrir norðan, líklega á Akureyri, en íbúðin er í Reykjavík, tveggja herbergja íbúð sem þau erfðu árið 2009. Bróðirinn taldi verðið eðlilegt enda hafði verðmæti arfshlutans verið rúmlega 3,8 milljónir árið 2009. Auk þess tók hann á sig við kaupin áhvílandi lán upp á 3,4 milljónir auk viðhaldskostnaðar. Verðmæti fasteignarinnar á afsalsdeginum var 28 milljónir samkvæmt matsgerð. Dómarinn taldi að stefnandinn, eiginmaður konunnar, hefði sýnt fram á að greinilegur munur hefði verið á markaðsverði íbúðarinnar og því verði sem bróðirinn greiddi fyrir helmingshlutinn.

Ennfremur segir í dómsniðurstöðunni:

„Stefndi hefur hreyft þeim sjónarmiðum að þar sem einungis hafi verið um að ræða sölu á helmingshlut í íbúðinni eigi verðmatið að taka mið af því að mun torveldara sé að selja slíkan eignarhlut heldur en íbúð í heild sinni, eins og staðfest sé í matsgerð L. Á þetta getur dómurinn ekki fallist. Matsmaðurinn skýrði frá því fyrir dómi að við verðmat á helmingshlut í fasteignum við sambúðarslit sé ætíð miðað við verðmæti heildareignarinnar. Að mati dómsins standa ekki rök til annars hér, enda væri kaupandi að öðrum kosti að hagnast með óeðlilegum hætti á kostnað seljanda.“

Matsgerðir lækna renndu stoðum undir þá fullyrðingu að konan hefði ekki verið í ástandi til að eiga í fasteignaviðskiptum á þeim tíma þegar afsalið var gert. Þá segir að bróðurnum hafi mátt vera ljós „vitræn skerðing hennar, hrakandi heilsufar og fákunnátta hennar um verðmæti fasteigna þegar hann hélt til fundar við hana á sjúkrahúsið með afsal tilbúið til undirritunar. Þá verður lagt til grundvallar að honum hafi verið ljóst að hún legði traust sitt á hann, sem verið hafði stoð hennar og stytta alla tíð, um hvað væri sanngjarnt verð fyrir hlut hennar í íbúðinni“.

Taldi dómari sannað að maðurinn hefði notfært sér bága stöðu systur sinnar, einfeldni hennar og fákunnáttu um hvað gæti talist eðlilegt verð á eignarhlutnum. Féllst dómari því, sem fyrr segir, á kröfu eftirlitandi eiginmanns konunnar um ógildingu afsalsins. Bróðirinn þarf jafnframt að greiða honum 2,5 milljónir króna í málskostnað.

 

Dóminn má lesa hér

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus

Tveir nýir meðeigendur hjá Expectus