Rúmlega fertugum föður hefur verið stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjaness og þess krafist að hann verði sviptur forsjá og umgengnisrétti við barn sitt. Móðir barnsins höfðar málið en fyrirkall og stefna hafa verið birt í Lögbirtingablaðinu.
Fólkið, sem er pólskt, sleit sambúð fyrir tæplega tveimur árum. Fara þau með sameiginlega forsjá yfir barninu og í kjölfar sambúðarslitanna var barnið til skiptis hjá föður og móður, viku í senn.
Í stefnunni segir að geðræn vandamál hafi gert vart við sig hjá föðurnum fyrir sambúðarslitin og hafi hann sýnt af sér ofbeldisfulla hegðun í garð móðurinn og barnsins. Segir að lögregla hafi margsinnis verið kölluð að heimili þeirra vegna ofbeldis hans í garð móður og barns. Einnig segir: „Þá var lögregla í tvígang kölluð að leikskóla barnsins þar sem stefndi var í annarlegu ástandi, og þurfti lögregla 12. nóvember að fjarlægja stefnda af leikskólanum með valdi.“ Konan fékk nálgunarbann á manninn seint í nóvember árið 2021.
Í stefnunni er maðurinn sakaður um brot gegn 217. og 218. grein hegningarlaganna, en þær fjalla um líkamsárásir og brot við þeim geta varðað fangelsi frá sex mánuðum upp í þrjú ár. Hann er einnig sakaður um brot á barnaverndarlögum.
Í stefnunni kemur ennfremur fram að konan hafi allt frá því í desember 2021 sóst eftir fullri forsjá yfir barninu. Faðirinn hefur ekki mætt á sáttafundi hjá sýslumanni vegna málsins. „Stefnandi telur forsendur fyrir sameiginlegri forsjá barnsins brostnar í ljósi ofbeldis og vanrækslu stefnda í garð stefnanda og barnsins. Stefnandi óttast um öryggis barnsins vegna geðræns vanda stefnda. Er því nauðsynlegt að höfða mál til úrlausn mála. Aðrar leiðir hafa verið þrautreyndar,“ segir í stefnunni.
Þá segir ennfremur: „Stefnandi óttast áframhaldandi líkamlegt og andlegt ofbeldi í garð sín og barnsins. Öryggi barnsins verður stefnt í voða fallist dómur ekki á kröfur stefnanda. Í því samhengi bendir stefnandi á að lögregla hefur í tvígang verið kölluð til leikskóla barnsins vegna stefnda og margsinnis að heimili stefnanda vegna ofbeldis hans. Fékk stefnandi nálgunarbann vegna þessa.“
Stefna vegna málsins var birt í Lögbirtingablaðinu þann 6. febrúar síðastliðinn og var málið þingfest þann 12. febrúar. Faðirinn mætti ekki fyrir dóm þá. Þar sem sáttavottorð var þá eldra en sex mánaða var málinu vísað frá dómi. „Í nýju sáttavottorði, dags. 3. mars 2023, var árangurslaus sáttameðferð aðila staðfest. Var það mat sáttamiðlara, með hagsmuni barnsins að leiðarljósi, að ekki megi fresta frekar framgangi málsins.
Málið verður þingfest að nýju fyrir Héraðsdómi Reykjaness þann 19. apríl næstkomandi.