fbpx
Þriðjudagur 21.mars 2023
Fréttir

Sprengingin í Grenivík – Kinga kom öllum á óvart og lifði af – „Ég var í áfalli. Ég vissi ekki hvað væri á seyði. Það var enginn sársauki“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 13. mars 2023 20:54

Skjáskot/RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kinga Kleinschmidt, sem hlaut þriðja stigs brunasár á 85 prósent líkama síns eftir sprengingu sem varð í verksmiðju Pharmartica á Grenivík, er komin heim til Íslands eftir langa og stranga meðferð í Noregi undanfarið ár. Hún vonast til að þess að mega fara heim til sín í næsta mánuði, þá rúmu ári eftir slysið.

Kinga steig fram í Kastljósinu þar sem hún opnaði sig um slysið og bataferlið, en undravert hefur þótt að hún hafi lifað meiðsli sín af og náð svona góðum árangri.

Það var þann 23. mars á síðasta ári að sprenging varð í verksmiðju Pharmarctica á Grenivín þar sem unnið var með hreinsað bensín. Tvennt slasaðist, Kinga og svo Víkingur Leó Sigurbjörnsson.

„Ég var að setja vökvann á flöskur eins og alla daga og ég veit í raun ekki hvað gerðist,“ sagði Kinga.

„Ég vildi bara sjá hve mikið af vökva væri eftir í tunnunni. Og hún bara sprakk.“ 

Allt farið

Víkingur og Kinga ruddu sér bæði út úr verksmiðjunni og köstuðu sér í snjóinn þar fyrir utan. Aðrir starfsmenn fylgdu þeim eftir og reyndu að slökkva eldinn.

Víkingur segir að hann hafi ekki áttað sig strax á hver skaðinn væri. Hann hefði tekið eftir því að hann væri brenndur á höndum og fótum en þegar hann sá Kingu hlaupa út sá hann strax að hún var verra stödd.

„Hjá henni var þetta allt farið“ 

Kinga segir að það fyrsta sem hún hugaði að hafi verið að valda móður sinni ekki áhyggjum.

„Ég hljóp út, hoppaði í snjóinn og þegar öll voru komin út, voru þau í áfalli, það var ringulreið og ég man að ég sagði fólkinu að hringja ekki í mömmu því hún fengi bara áhyggjur af mér.“ 

Hún hafi þó ekki fundið fyrir sársauka.

„Ég var í áfalli. Ég vissi ekki hvað væri á seyði. Það var enginn sársauki. Ég vissi ekki einu sinni að ég hefði tapað fötunum mínum, að þau hefðu brunnið. Ég vissi það ekki einu sinni.“ 

Viðbragðsaðilar brugðust fljótt við og voru komnir á staðinn rétt rúmum tuttugu mínútum eftir að útkallið barst.

Töldu að hún myndi ekki lifa þetta af

Á sjúkrahúsinu á Akureyri var talið að Kinga myndi ekki lifa þetta af og var fjölskyldu hennar sagt að koma á staðinn til að kveðja hana.

Kinga var svo flutt með sjúkraflugi til Bergen í Noregi þar sem hún var lögð inn á sérstaka deild fyrir fólk með alvarlegan bruna. Ekki hafði læknum þar áður tekist að bjarga sjúklingi með jafn alvarlega áverka og Kinga, en það tókst þarna.

Kinga á erfitt með að muna eftir fyrsta hálfa árinu eftir slysið enda var hún að taka inn mikið af lyfjum.

Víkingur var með bruna á um 40 prósent líkamans og var því hægt að sinna meðferð hans hér á Íslandi. Hann rankaði við sér mánuði eftir slysið og er í dag aftur farinn að vinna í verksmiðjunni í Grenivík, þó hann vinni bara hálfan vinnudag sem stendur. Honum þótti mikilvægt að horfast í augu við ótta sinn og mæta aftur á slysstað.

Kinga á lengra í land. En hún er nú komin á sjúkrahús hér á Íslandi þar sem hún verður áfram að minnsta kosti næstu vikurnar. Næst er förinni heitið á endurhæfingarmiðstöð og vonast Kinga til að geta farið heim í næsta mánuði. Hún vill áfram vera í Grenivík.

Hún segir að oft hafi hún misst vonina um að geta átt eðlilegt líf og hafi hún upplifað mikla reiði og hafi þetta reynst henni mjög erfitt.

„Ég gat ekki ímyndað mér að ég myndi lifa venjulegu lífi. Nokkurn tímann. Mig langaði alltaf að stofna til fjölskyldu, eiga börn, eiginmann. Og núna…. finnst mér ég ekki aðlaðandi og ég hugsa að enginn muni líta við mér eftir þetta slys.“ 

Hún horfir í dag til framtíðar, en hana langar að verða förðunarfræðingur. Hún fer í svokallaðar brunabúðir í september og vonast til að geta þar farðað fólk í fyrsta sinn.“

Ítarlega er farið yfir málið í Kastljósinu. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mennirnir ekki grunaðir um að hafa orðið manni að bana á Grundarstíg

Mennirnir ekki grunaðir um að hafa orðið manni að bana á Grundarstíg
Fréttir
Í gær

Lögregla tvisvar kölluð til leikskóla vegna ofbeldis föður

Lögregla tvisvar kölluð til leikskóla vegna ofbeldis föður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ekki talið líklegt að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti að svo stöddu

Ekki talið líklegt að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti að svo stöddu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maður látinn eftir alvarlegt vinnuslys í Ásahreppi

Maður látinn eftir alvarlegt vinnuslys í Ásahreppi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Börkur hleypur fyrir Píeta 

Börkur hleypur fyrir Píeta 
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Þetta eru auðvitað algjörar sorgarsögur þegar við heyrum þær. Þær eru of margar“

„Þetta eru auðvitað algjörar sorgarsögur þegar við heyrum þær. Þær eru of margar“