fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir stórfellt brot í nánu sambandi og tilraun til manndráps – Ákærði sagðist ítrekað hafa reynt að slíta sambandi við æskuástina

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 2. febrúar 2023 10:00

Héraðsdómur Reykjavíkur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður var nýlega dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir nauðgun, stór­fellda líkams­á­rás og stór­fellt brot í nánu sam­bandi. Maðurinn var einnig á­kærður fyrir til­raun til mann­dráps. Maðurinn var einnig ákærður og dæmdur fyrir líkamsárás gegn öðrum brotaþola, en sá brotaþoli gerði ekki kröfu um refsingu þar sem hann og ákærði eru nú í sambandi. Báðar líkamsárásirnar voru framdar sama dag, 1. ágúst 2022.

Dómurinn var kveðinn upp 18. janúar, en birtur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur í gær. Málið var dómtekið 16. desember og er dómurinn langur og ítarlegur en í ákæru sem útgefin var 24. október 2022 segir um brot ákærða gagnvart brotaþola A:

fyrir tilraun til manndráps, nauðgun og stórfellt brot í nánu sambandi en til vara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, nauðgun og stórfellt brot í nánu sambandi með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 1. ágúst 2022 ráðist að fyrrverandi unnustu sinni og sambýliskonu, með hótunum, ofbeldi og ólögmætri nauðung og haft samræði og önnur kynferðismök við hana, án hennar samþykkis, utandyra og inni í bifreiði við nánar tiltekinn stað, en ákærði braut rúðu í bifreiðinni, sló brotaþola ítrekað í andlit, höfuð og líkama, dró hana út úr bifreiðinni, hrinti henni á malbikið, tók hana ítrekað hálstaki og kverkataki, reif í hár hennar, hélt hníf upp að hálsi hennar, þvingaði hana til að liggja ofan á glerbrotum, hótaði henni lífláti og líkamsmeiðingum m.a. með því að klippa eða skera af henni snípinn, skera hana á háls og klippa af henni hárið. Á meðan á framangreindu stóð neyddi ákærði brotaþola til munnmaka, samræðis og endaþarmsmaka, en brotaþoli reyndi ítrekað með orðum og athöfnum að fá ákærða til að láta af háttseminni.

Brotaþoli hlaut töluverða áverka af árásinni: hlaut brotaþoli mar og eymsli á enni og hægra megin á hvirfli, bólgu og eymsli yfir nefbeinum, bólgu og mar á augnloki og kringum hægra auga, skrámu á vinstra augnsvæði, bólgu og sár á neðri vör hægra megin, eymsli við kjálka beggja vegna, bólgu og mar framanvert og hliðlægt yfir barka, eymsli yfir barkakýli og á hálsi beggja vegna,brot á málbeini vinstra megin, skrámu ofan hægra viðbeins og aftan við vinstra eyra, punktablæðingu á hljóðhimnu vinstra megin, hrufl á hægri öxl, skrapsár á hægri síðu, skrámur víðsvegar á neðri hluta baks og á báðum rasskinnum, mar á hægri olnboga, hrufl á báðum hnjám, mar á innanverðu hægra læri, hægri nára og hægri ökla, skrámur víðsvegar á fótleggjum og ristum beggja vegna og slímhúðarrifur í endaþarmsopi.

Í ákæru vegna seinni líkamsárásinnar er ákært fyrir:

sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa mánudaginn 1. ágúst 2022 ráðist á B brotaþola B í bifreið sem lagt hafði verið við tiltekinn stað í  Reykjavík, með því að slá hana ítrekuðum hnefahöggum í andlitið og slá hana í eitt skipti í andlitið með olnboga, rífa í hár hennar, sparka í andlit hennar, taka hana hálstaki og þrengja að öndunarvegi hennar og draga hana úr bifreiðinni, allt með þeim afleiðingum að B hlaut mar yfir augnloki og kinnbeini vinstra megin, brot í gólfi augntóftar og húðblæðingu á hægra eyra, neðri kjálka, hálsi, báðum öxlum, báðum handleggjum, brjóstkassa og ganglimum.

Af hálfu beggja brotaþola voru gerðar kröfur um miskabætur, annars vegar að fjárhæð 4.000.000 kr. auk vaxta og hins vegar að fjárhæð 2.500.000 kr. auk vaxta. Jafnframt var þess krafist að ákærða yrði gert að greiða málskostnað.

Krafðist sýknu eða vægustu refsingar

Ákærði krafðist þess að hann yrði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara að hann yrði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Ákærði hélt því fram að háttsemin væri ósönnuð, ásetning hans hefði skort til að fremja brotin og að fyrir hafi legið samþykki brotaþola vegna kynmakanna og meintrar líkamsárásar tengdum þeim.

Í annarlegu ástandi við handtöku

Brotaþoli A leitaði aðstoðar hjá ókunnugu fólki eftir árásina, en tilkynnandi til lögreglu sagðist hafa vaknað upp við það að dyrabjöllunni var hringt og reyndist það vera brotaþoli og óskaði hún eftir hjálp. Hann hefði hleypt henni inn og reyndist hún vera buxnalaus og blóðug og sagði honum að fyrrverandi kærasti hennar hefði ráðist á hana. Kvaðst hún hafa hlaupið buxnalaus út úr bifreiðinni eins hratt og hún gat og farið inn í fyrsta húsið sem hún sá. Ákærði var handtekinn sama dag og var í annarlegu ástandi þegar hann var handtekinn, þurr í munni og sljór í máli og töluvert af storknuðu blóði var í fötum hans. 

Í skýrslu brotaþola kom fram að hún hefði farið að hitta ákærða og hefði verið ætlunin að skutla honum í Hafnarfjörð. Hafi þau stoppað við verkstæði þar sem árásin átti sér stað. Ákærði hefði verið mjög grófur og ofbeldisfullur og hefði henni liðið sem þetta hefðu verið margir klukkutímar. Hún hafi síðan náð að opna dyrnar á bifreiðinni og hlaupa á peysunni einni fata að fjölbýlishúsi þar sem hún hringdi öllum dyrabjöllum. Kvaðst hún nokkrum sinnum hafa orðið hrædd á meðan á þessu stóð og hafa flúið þar sem hún hefði haldið að hún myndi jafnvel deyja. Kom fram í skýrslu hennar að hún og ákærði hefðu reykt krakk saman fyrir árásina.

Í skýrslu ákærða hjá lögreglu sagði hann brotaþola vera æskuástina sína en hann væri ítrekað búinn að slíta sambandi við hana. Neitaði hann því að hafa brotið gegn henni og sagði kynmökin hafa verið með samþykki brotaþola. Þá hefði hann ekki hótað henni lífláti eða ekki reynt að drepa hana. Þá neitaði hann því að hafa lagt hníf að hálsi hennar. Ákærði sagði í næstu skýrslu hjá lögreglu að stimpingar hefðu orðið á milli þeirra þar sem hann sagði brotaþola að hann væri byrjaður með annarri.

Ítarlega er farið yfir öll þessi gögn málsins í dómnum.

Brotin andlitsbein eftir ítrekuð spörk

Í málsatvikum hvað varðar seinni ákæruna segir að lögreglu hafi borist tilkynning 1. ágúst 2022 um blóðuga konu í annarlegu ástandi á bifreiðastæði. Þegar lögregla kom á vettvang var konan farin og komin í íbúð hjá fyrrum sambýlismanni sínum. Brotaþoli var illa farin í andlitinu, með glóðarauga á báðum augum og marbletti á höndum. Hún virtist vera hrædd og vildi alls enga aðstoð og ekki ræða við lögreglu en svaraði játandi þeirri spurningu hvort ákærði hefði gert þetta. Brotaþoli var flutt á bráðamóttöku en hún reyndist meðal annars vera með brotin andlitsbein sem hún sagði vera eftir að ákærði sparkaði í andlit hennar. Brotaþoli óskaði eftir því að fá frest til að ákveða hvort hún legði fram kæru vegna málsins. Ákærði var handtekinn skömmu síðar, var hann í annarlegu ástandi og vildi ekkert tjá sig við lögreglu. Var bifreiðin haldlögð sem hugsanlegur brotavettvangur. 

Brotaþoli sagði við skýrslutöku að þau hefðu verið saman í bifreiðinni, hefði þau farið að rífast og ákærði í kjölfarið ráðist á hana. Brotaþoli kvaðst halda að þetta hefðu verið að lágmarki fimm högg sem ákærði sló hana í andlitið fyrir utan sparkið en ákærði hefði einu sinni sparkað í andlit hennar. Ákærði neitaði því að hafa kýlt brotaþola nokkrum sinnum eins og hún bar um en viðurkenndi að hafa kastað farsíma hennar út úr bifreiðinni. 

Farið er ítarlega yfir öll gögn málsins líkt og með fyrri ákæruna.

Geðlæknir var dómkvaddur sem matsmaður til að framkvæma geðrannsókn vegna ákærða. Í mati geðlæknisins er það rakið að ákærði væri búinn að vera í neyslu vímuefna frá unglingsárum. Miðað við orðaval og samræður væri greind hans og þroski innan eðlilegra marka og virtist hann hafa náð að sinna vinnu framan af. Frá því í júlí 2017 virðist meira stjórnleysi hafa verið komið á neysluna og hann tvisvar verið lagður inn auk annarra einkenna tengd neyslu. Hann hafi í dag eftirsjá og sjái að hann þurfi að snúa lífi sínu til betri vegar.

Ósannað að ákærði hafi ætlað að deyða brotaþola

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að af framburði ákærða og brotaþola verður ráðið að þau hafa verið í nánu sambandi með hléum frá því að þau kynntust fyrir um 13 árum síðan og búið saman í yfir tvö ár á tveimur tímabilum. Slitu þau seinni sambúðinni um ári áður en atvik gerðust og hafa síðan þá nokkrum sinnum verið í sambandi án þess að búa saman.

Dómari mat það svo af málsgögnum að brotaþoli hafi verið fyrrverandi unnusta og sambýliskona ákærða og að samband þeirra hafi verið slíkt að það falli undir skilgreiningu 218. gr. b í almennum hegningarlögum á nánu sambandi. Er framburður ákærða og brotaþola samhljóða hvað það varðar að þau hefðu nýlega verið byrjuð að hittast aftur eftir hlé, en fyrir liggur að ákærði hafi einnig verið að hitta brotaþola B.

Dómari taldi ósannað að fyrir ákærða hafi vakað að deyða brotaþola A. Var ákærði því sýknaður af broti gegn 211., sbr. 20., gr. almennra hegningarlaga. Hálstak ákærða taldist engu að síður ótvírætt hættuleg aðferð við líkamsárás og brot hans því heimfært undir 2. mgr. 218. gr. sömu laga sem sérstaklega hættuleg líkamsárás.

Hvað varðar seinni líkamsárásina taldi dómari sannað að ákærði hafi slegið brotaþola ítrekuðum hnefahöggum í andlitið og sparkað einu sinni í andlit hennar. Í dómaframkvæmd hefur sú háttsemi að sparka í höfuð manns verið talin sérstaklega hættuleg líkamsárás vegna hættueiginleika aðferðarinnar. Brotaþoli lýsti því yfir fyrir dómi að hún gerði ekki refsikröfu í málinu. Málshöfðun vegna brots gegn framangreindu lagaákvæði er ekki háð kröfu þess sem misgert er við. Fyrir liggur að ákærði og brotaþoli eru nú í nánu sambandi og höfðu þau verið hittast um tíma þegar atvik gerðust. Þá kom fram hjá brotaþola að hún hefði verið á slæmum stað andlega þegar atvik gerðust.

 Ákærði ekki talinn eiga neinar málsbætur

Ákærði hafði áður verið tvisvar sakfelldur fyrir ofbeldisbrot. Með dómi héraðsdóms árið 2008 var hann dæmdur í 15 mánaða fangelsi skilorðsbundið að hluta í þrjú ár og með dómi héraðsdóms árið 2017 dæmdur í 30 daga fangelsi skilorðsbundið í tvö ár.  Hefur ákærði nokkrum sinnum verið dæmdur til refsingar vegna umferðarlagabrota. 

Var atlaga ákærða gegn brotaþola A metin til refsiþyngingar, en hún var talin einstaklega gróf, ófyrirleitin og langvinn. Horft var til þess að árás ákærða gegn brotaþola B átti sér að einhverju leyti stað í áflogum þó að ljóst sé að verulega hallaði á brotaþola, til þyngingar varr litið til þess að sú atlaga ákærða var einnig gróf og að brotaþoli hlaut við hana alvarlega áverka. Að öðru leyti en að framan var ákærði ekki talinn eiga sér málsbætur. Með vísan til framangreinds og 77. gr. almennra hegningarlaga þótti refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimm ár. Til frádráttar dæmdri refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 2. ágúst 2022. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”
Fréttir
Í gær

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“