Grindvíkingar eru ekki ánægðir með starfsauglýsingu frá sveitarfélagi sínu sem óskar eftir leikskólakennurum og leiðbeinendum til starfa í safnleikskólum bæjarins á höfuðborgarsvæðinu.
Létu bæjarbúar til sín taka í athugasemdakerfi á Facebook-síðu Grindavíkur þar sem gagnrýnt er að bærinn hafi ekki skoðað að taka yfir reksturinn á einkarekna leikskólanum Krók.
„Þið hendið öllum tilfinningum og tengslum sem starfsfólkið hefur milli sín, barnanna og foreldra í ruslið því excel skjalið hentar ekki? Ekkert við það sem er í gangi núna hentar neinum og bæta svo þessum tilfinningum sem fólkið upplifir núna ofan í þetta, atvinnulaus, er bara ekki í boðið. Ég hef fulla trú að bærinn sjái að sér og geri það rétta í stöðunni,“ skrifar einn.
Virðist sem svo að bæjarbúar hafi staðið í þeirri trú að starfsfólki Króks yrði boðið að koma yfir til sveitarfélagsins í ljósi aðstæðna svo þau geti fylgt eftir þeim börnum sem hafa verið hjá þeim. Bæjarbúar telja það til skammar að gengið hafi verið að þeim orðum.
„Maður hreinlega spyr sig hvort það sé vert að búa í slíku sveitarfélagi ef þetta er hugsunin. Hefði verið mjög einfalt að leysa þetta en í stð er starfsfólk Króks nú launalaust og þurfa að sækja um hjá Vinnumálastofnun til að fá einhver laun og eru jafnvel að missa vinnuna. Frábært, eða þannig,“ skrifar annar.
Krókur er rekinn af félaginu Skólar ehf. en starfsfólki leikskólans var ekki boðinn forgangur í þær stöður sem bærinn er nú að auglýsa, þó þeim sé að sjálfsögðu frjálst að sækja um. Engu að síður gera starfsmenn ráð fyrir að vera bundnir að uppsagnarfrest sem geri samningsstöðu þeirra erfiðari.
„Mér finnst þetta til háborinnar skammar hvernig Grindavíkurbær kemur fram við starfsfólkið á Krók. Ég veit fyrir víst að þau voru tilbúin í að gera allt sem til þurfti án þess að missa réttindi sín til að halda hlutunum gangandi svo að fjölskyldur með börn á Krók myndu fá sömu frábæru þjónustu og áður og þyrftu ekki að verða fyrir enn einu áfallinu,“ skrifar enn ein.
Fleiri taka undir þetta og segjast upplifa framkomu bæjarins í garð Króks sem enn eitt áfallið sem gengið hefur yfir Grindvíkinga undanfarna mánuði. Afgreiðsla bæjarins hafi verið snubbótt og léleg.
„Ég velti fyrir mér hvort fulltrúar þar hafi allir fengið heilahristing í jarðskjálftunum 10. nóvember og séu bara ekki komnir il baka meðal vor,“ skrifar enn einn sem furðar sig á því að bærinn taki ekki yfir rekstur Króks.
Málið megi rekja til ákvörðunar bæjarstjórnar á föstudag þar sem niðurstaðan var að starfsemi Króks í safnskóla yrði ekki haldið úti heldur auglýst eftir starfsfólki á annan leikskóla, Laut sem yrði fengið að sjá um safnskólann. Í raun hafi bæjarstjórn þar með skrifað undir dauðadóm Króks. Bæjarstjórn hafi áður lofað að starfsmenn Króks fengju starf, en svo svikið það loforð.
Starfsmenn Króks hafa eins tjáð sig í umræðunni og sagt að Grindavíkurbær sé búinn að segja upp samningum við rekstraraðila leikskólans, Skóla ehf og þar með kippt rekstrargrundvelli undan starfseminni. Þar sem Krókur fær ekki lengur greitt fá bænum sé lítið annað að gera en að skella í lás. Fórnarkosturinn séu svo börnin og foreldrar þeirra. Stjórnandi í leikskólanum tók svo til orða að Skóli ehf hafi allur að vilja verið gerður til að leysa málið, en bærinn ekki haft áhuga.