fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Notendur EasyPark fengu SMS um netárás í gær – „Það er augljóst að einhver annar er að nota kortið mitt“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 30. desember 2023 09:30

Myndin er frá Getty og tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir notendur bílastæðaappsins EasyPark fengu í gær textaskilaboð frá fyrirtækinu þess efnis að það hefði orðið fyrir netárás. Tilkynningu sama efnis er að finna á vefsíðu fyritækisins.

Í tilkynningunni kemur fram að komist hafi verið yfir upplýsinga viðskiptavina sem ekki teljist viðkvæmar. EasyPark segist jafnframt hafa brugðist við netárásinni með gagnárás. „Sum ykkar urðu fyrir áhrifum af gagnaárásinni. Við höfum hafist handa við að hafa samband við alla viðskiptavini sem um ræðir,“ segir í tilkynningunni. Er bent á að þegar greitt er fyrir skráningu í stæði sé hluti greiðslukortanúmers sýnilegur en ekki hafi verið komist yfir upplýsingar sem dugi til þess að misnota kort viðskiptavina: „Þegar greitt er fyrir skráningu í stæði er hluti greiðslukortanúmers sýnilegur. Þær upplýsingar eru hluti þeirra gagna sem komist var yfir. Hins vegar getur enginn nýtt þessa hluta kortanúmera til þess að framkvæma greiðslur.“

Tilkynninguna í heild má lesa hér.

Á Facebook má finna umræður um þessa uppákomu. Þar segist einn notandi EasyPark hafa orðið fyrir misnotkun á greiðslukortinu sínu eftir að hann fékk tilkynningu í SMS-skilaboðum frá EasyPark:

„Ef einhver er með EasyPark appið og fenguð SMS í dag um netárás þá endilega skoðið yfirlitið ykkar og lokið kortinu! Þau segja að þeir hafi ekki komist yfir kortanúmer en það er ekki satt. Ég var að fá rúmlega 7 þúsund kr. færslu á kortið mitt frá Uber, ég er á Íslandi þannig að það er augljóst að einhver annar er að nota kortið mitt.“

DV hefur ekki upplýsingar um fleiri dæmi af þessu tagi né sannanir fyrir því að orsakatengsl séu á milli netárásarinnar og þessarar misnotkunar á korti mannsins.

Ekki tókst að ná sambandi við rekstraraðila EasyPark við vinnslu fréttarinnar en fréttin verður uppfærð ef frekari upplýsingar berast.

Uppfært kl. 10:30 – „Þetta er bara ekki rétt því þeir eru að nota kortið mitt“

Maðurinn sem greinir frá misnotkun á kortinu sínu í kjölfar þess að hann fékk tilkynningu frá EasyPark um netárásina heitir Arnar Þór Joensen Ægisson og náði DV sambandi við hann eftir að fyrri útgáfa þessarar fréttar hafði verið birt. Arnar segir það varla geta verið tilviljun að hann varð fyrir þessari misnotkun á kortinu sínu rétt eftir að honum barst SMS frá EasyPark um að fyrirtækið hefði orðið fyrir netárás og persónupplýsingar notenda hefðu lekið út. Úttekt sem skráð er á leigubílaappið Uber upp á 7.000 krónur var framkvæmd síðdegis í gær en skilaboðin frá EasyPark bárust í hádeginu. Arnar brást hratt við, hringdi í bankann og lét loka kortinu.

SMS-skilaboðin sem notendur EasyPark fengu í gær voru þessi:

Er þar vísað í tilkynninguna á vefsíðu fyrirtækisins sem fjallað er um hér að ofan. Þar kemur fram að netárásin átti sér stað 10. desember. „Af hverju er verið að láta vita tveimur vikum seinna eða meira?“ segir Arnar og undrast tímasetninguna á SMS-skilaboðunum.

Aðspurður hvort hann sé viss um að misnotkunin á kortinu hans í gær tengist þessari netárás á EasyPark segir Arnar: „Ég er ekki hundrað prósent viss en ég fékk þessi skilaboð bara í hádeginu í gær, um að persónuupplýsingar hefðu farið eitthvað og svo gerist þetta. En þetta er ekki einu sinni út frá Íslandi og það er enginn annar með kortanúmerið mitt, þannig að ég get ekki ímyndað mér að það sé eitthvað annað. Ég get ekki ímyndað mér hvaðan annars staðar þetta ætti að hafa komið frá. Það er bara fáránleg tilviljun ef þetta tengist ekki.“

Arnar grunar EasyPark um ósannindi, varðandi það að netþrjótarnir hafi ekki getað komist yfir greiðslukortaupplýsingar sem nægi til misnotkunar og bendir á að hann hefði getað lokað kortinu strax og komið í veg fyrir úttektina ef hann hefði fengið tilmæli um það frá EasyPark í stað þess að því sé lýst yfir að ekki sé hætta á misnotkun greiðslukortaupplýsinga. Telur hann að EasyPark hefði átt að ráðleggja notendum sínum að loka greiðslukortunum. Allt bendi til að upplýsingar í tilkynningu EasyPark séu ekki réttar: „Þetta er bara ekki rétt því þeir eru að nota kortið mitt,“ segir Arnar og vísar þar í færsluna sem merkt er Uber.

„Það er líka ekki í boði að hringja eða hafa samband með neinum hætti,“ segir Arnar og hefur þar sömu reynslu og blaðamaður. Ef hringt er í símanúmer EasyPark kemur fram að ekki sé opið hjá fyrirtækinu. Við gúggl kemur upp nafn þess er var framkvæmdastjóri fyrirtækisins árið 2019 en sá er ekki í símaskrá. Engin leið virðist fyrir hvorki notendur appsins né fjölmiðla að fá frekari upplýsingar um málið frá rekstraraðilum EasyPark.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Talaði Trump af sér?

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum
Talaði Trump af sér?