Ísraelsmenn hafa bætt í landhernað sinn á miðhluta Gasa að undanförnu og samtímis hótar einn af þremur ráðherrum í stríðsráðuneyti landsins að stigmagna stríðið á öðrum vígstöðvum.
Ráðherrann, Benny Gantz, segir að Hizbollah-hryðjuverkasamtökin í Líbanon séu að herða flugskeytaárásir sínar á Ísrael og ef þessum árásum linni ekki muni Ísraelsmenn grípa til aðgerða. Hizbollah njóta stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran. „Staðan við norðurlandamæri Ísraels kallar á breytingar og gluggi diplómatískra lausna er að lokast,“ sagði hann á fréttamannafundi á miðvikudaginn.
„Ef heimsbyggðin og líbanska ríkisstjórnin grípa ekki til aðgerða til að koma í veg fyrir að skotið sé á íbúa í norðurhluta Ísraels og fjarlægja Hizbollah frá landamærasvæðinu, mun ísraelski herinn gera það,“ sagði Gantz.
„Við neyðumst til að vera undirbúin undir að grípa til aðgerða ef nauðsyn krefur,“ sagði Herzi Haleve, æðsti yfirmaður ísraelska hersins.