Þetta sagði hann í samtali við danska dagblaðið Information en Utkin býr nú á Fjóni í Danmörku en hann hefur fordæmt stríðsrekstur Rússa gegn Úkraínu.
Hann sagði að Pútín hafi gert stríðið að algjörum miðpunkti í hugmyndafræði sinni og hvernig hann stýri Rússlandi að það sé erfitt fyrir hann að finna útleið. „Þegar maður hlustar á hann, þá skilur hann ekki eftir neinn möguleika á að láta Úkraínu halda áfram að vera til. Í hans huga er ekkert rými fyrir sjálfstæða Úkraínu í framtíðinni,“ sagði Utkin.
Hann sagði að efnahagslegar afleiðingar stríðsins og refsiaðgerða Vesturlanda gegn Rússlandi séu miklar. Þá sé mannfall rússneska hersins gríðarlegt og á einhverjum tímapunkti verði erfitt fyrir Pútín að selja þjóð sinni þá sögu að allt sé eins og það á að vera.