Aníta Björt Berkeley er 26 ára einstæð tveggja barna móðir. Í byrjun nóvember lést yngri dóttir hennar, tæplega sjö vikna gömul. Vinkona Anítu hefur stofnað styrktarreikning til að styðja Anítu á þessum erfiða tíma.
„Kæru vinir. Elskuleg vinkona mín Aníta Björt lenti í þeirri hræðilegu lífsreynslu að missa dóttur sína 4. nóvember síðastliðinn. Litla fullkomna stelpan hennar lést skyndilega á heimili sínu 6 vikna og 6 daga gömul. Sorgin sem situr eftir hjá aðstandendum er án efa meiri en hægt er að gera sér í hugarlund,“ segir Kristjana Dögg Baldursdóttir, sem gaf DV góðfúslega leyfi til að fjalla um söfnunina.
„Aníta er einstæð og á einnig aðra dóttur, Maliku Ivý sem er að verða tveggja ára og eru því þungir tímar framundan, bæði andlega og fjárhagslega fyrir þær mæðgur. Í stöðu sem þessari er lítið sem maður getur gert og allt sem maður gerir og segir virðist of lítið. Ekkert getur fyllt í skarðið sem situr eftir í hjörtum fjölskyldunnar.
Mín von er að Aníta og fjölskylda þurfi ekki að hafa fjárhagsáhyggjur ofan á þá miklu og ólýsanlegu sorg sem þau ganga í gegnum núna og hef ég því stofnað styrktarreikning á nafni Anítu og bið ég ykkur sem getið að leggja þeim lið á þessum hræðilegu tímum. Margt smátt gerir eitt stórt.“
Þeir sem geta stutt við mæðgurnar Anítu Björt og Maliku Ivý geta lagt inn á neðangreindan reikning sem er á nafni Anítu Bjartar:
Reikningsnúmer: 0370-22-072677
Kennitala: 201197-2449