fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Glúmur varð fyrir miklu áfalli: „Ég bara stoppaði bílinn og missti vitið, ég trúði þessu ekki“

Einar Þór Sigurðsson
Föstudaginn 10. nóvember 2023 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Glúmur Baldvinsson alþjóðastjórnmálafræðingur er nýjasti gestur í Spjallinu með Frosta Logasyni á hlaðvarpsveitunni Brotkast. Í viðtalinu fer Glúmur um víðan völl og ræðir skrautlegt lífshlaup sitt, til dæmis feril sinn hjá alþjóðastofnunum, Sameinuðu þjóðunum og NATO og hvernig það hefur verið að vera sonur Bryndísar Schram og Jóns Baldvins Hannibalssonar, eins áhrifamesta stjórnmálamanns lýðveldissögunnar.

Glúmur ræðir líka hið mikla áfall sem fjölskylda hans varð fyrir þegar systir hans, Snæfríður Baldvinsdóttir, varð bráðkvödd í janúar 2013. Brot úr þættinum hefur verið birt á heimasíðu Brotkasts og má sjá það hér að neðan. Í því ræðir hann áfallið sem hann varð fyrir þegar Snæfríður lést.

Skildi ekki af hverju síminn hætti ekki að hringja

Glúmur rifjar upp að á þessum tíma hafi hann verið nýkominn heim frá Afganistan, hálf þunglyndur og ekki vitað hvað hann ætti að gera á Íslandi.

„Ég var eitthvað mjög dapur og hún vildi hressa mig, tala við mig og reyna að berja í mig kjark og hún segir: „Glúmur, eigum við ekki að hittast á morgun?“

Glúmur segir að þetta hafi verið á fimmtudagskvöldi og hann tekið vel í það. Planið hafi verið að hittast síðdegis á föstudeginum og borða saman.

„Svo þegar líður á eftirmiðdaginn þá sendi ég henni póst og segi frestum þessu til morgundagsins. Svo kemur laugardagsmorguninn og þá byrjar síminn að hringja og hringja, frá klukkan 8 um morguninn. Ég bara slökkti á símanum og hugsaði: Af hverju lætur fólk mig ekki í friði hérna, það er laugardagsmorgun.“

Glúmur segist svo hafa farið á fætur um hádegið og ákveðið í kjölfarið að fara út á rúntinn.

„Þá svara ég loksins símanum og þá er það dóttir mín í símanum og hún segir: „Pabbi, pabbi – af hverju svararðu ekki?“

Glúmur segist hafa spurt hvað væri eiginlega að og þá hafi hann fengið fréttirnar: „Hún Dídí systir þín er dáin.“

Missti vitið

„Ég var við eitthvað bakarí í Þingholtunum og ég bara stoppaði bílinn og missti vitið, ég bara trúði þessu ekki,“ sagði Glúmur sem kveðst hafa velt fyrir sér hvað hefði gerst ef hann hefði hitt Snæfríði á föstudeginum í stað þess að fresta fram á laugardag.

„Ef ég hefði hitt hana þetta kvöld eins og við vorum búin að plana þá hefði ég kannski getað komið í veg fyrir þetta. Þá hefðu hlutirnir þróast öðruvísi.“

Frosti spurði Glúm svo hvernig hún lést.

„Hún sem sagt kafnaði í svefni, hún var ein, út af því að hún fékk þetta flogaveikiskast og það var enginn á svæðinu,“ segir Glúmur og bætir við: „Hún var náttúrulega uppáhaldssystir mín.“

Fór á fyllerí og lokaði sig af

Frosti spurði Glúm svo hvernig næstu vikur og mánuðir hefðu verið eftir áfallið.

„Ég verð bara að segja eins og er, ég bara fór á fyllerí. Ég fór ekkert út úr húsi, ég lokaði mig bara af og lét ekki sjá mig. Svo reyndu einhverjir vinir mínir að fá mig út til að reyna að lífga upp á mig og það tókst eftir svona fjórar vikur. Ég hafði bara lokað mig inni, ég talaði ekki einu sinni við foreldra mína af því að mér fannst enginn eiginlega skilja þetta, eða taka þessu nægjanlega alvarlega.“

Glúmur segist hafa verið reiður yfir því hversu langan tíma það tók að fá krufningarskýrslu. Það hafi tekið um hálft ár og loksins þegar hún kom hafi hún verið á „kínversku“ eins og hann orðaði það. Segist hann hafa viljað fá úr því skorið hvort einhver mistök hefðu mögulega átt sér stað, Snæfríður hafi verið á lyfjum á þessum tíma og verið að reyna að eignast barn. „Ég var að spyrja mig ýmissa spurninga svo bara gafst ég upp, ég var að verða geðveikur á þessum spurningum.“

Í viðtalinu ræðir hann einnig mál elstu systur sinnar, Aldísar, sem hefur borið föður þeirra þungum sökum. Viðtalið má nálgast í heild sinni á Brotkast.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ljúka við stóran áfanga í afhendingu á kerfi fyrir stjórnun flugumferðar í Ungverjalandi og Kosovo

Ljúka við stóran áfanga í afhendingu á kerfi fyrir stjórnun flugumferðar í Ungverjalandi og Kosovo
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“

Óprúttnir netglæpamenn herja á ferðaþjónustufyrirtæki – „Þeir kaupa þjónustu með fölskum kortanúmerum“
Fréttir
Í gær

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“
Fréttir
Í gær

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“