Bláa lóninu verður lokað í eina viku frá og með deginum í dag og til 16. nóvember klukkan 07.00.
Þetta kemur fram í tilkynningu. Í henni kemur ennfremur fram að þetta hafi verið ákveðið þrátt fyrir að viðbúnaðarstig almannavarna hafi ekki verið aukið, staðan verði metin í framhaldinu.
Meginástæður fyrir ákvörðuninni eru sagðar truflun á upplifun gesta í nótt og langvarandi aukið álag á starfsmenn.
„Bláa Lónið hf. mun fylgjast með framgangi hræringanna næstu sólarhringa og meta stöðuna. Okkar frábæru og tryggu starfsmenn fá greidd full laun meðan á lokun stendur og gestir fulla endurgreiðslu,“ eins og segir í tilkynningunni.