Kraftakarlinn Hafþór Júlíus Björnsson hefur undanfarið haslað sér völl erlendis með íslensku skyri. Fyrirtæki hans Thor’s skyr nýtur töluverðra vinsælda, en það er rekið sem alþjóðegt fyrirtæki sem á þá hliðstæðu hér á landi, einkahlutafélagið Thor’s skyr ehf.
Markaðsstofan Moni Growth ehf. taldi sig eiga heimtur á peninga greiðslum frá þessu dótturfyrirtæki og stefndi því fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur.
Greindi markaðsstofan frá því að á árinu 2021 hafi stofan gert samning við Thor’s skyr ehf. um markaðs-, greiningar og hönnunarvinnu. Fyrir þetta átti Moni Growth að fá greiddar tæpar 11,5 milljónir. Markaðsstofan hafðist handa en eftir að fyrsti reikningurinn var sendur bólaði ekkert á efndum.
Samningurinn sem um ræddi lá fyrir í málinu. Þar voru tilteknir ýmsir verkþættir og tilgreind fjárhæð við hvern og einn. Mátti á annarri síðu skjalsins finna undirritun frá forsvarsmanni Moni Growth og svo undirskrift frá Unnari Helga Daníelssyni, sem er annar stofnenda Thor’s skyrs og forráðamaður íslenska félagsins. Við undirskriftina var þó auðkennt að undirritun væri fyrir hönd alþjóðlega anga rekstursins.
Íslenska félagið neitaði því að vera hluti af þessum umdeilda samningi. Þar segi að viðskiptavinurinn sé bandaríska félagið og hvorki megi finna nafn né kennitölu þess íslenska á þessum pappírum. Sökum þess yrði dómari að vísa málinu frá þar sem íslenska félaginu væri málið óviðkomandi. Eins hélt íslenska félagið því fram að ekkert í þessum meinta samningi bæri með sér að um endanlegt samkomulag hafi verið að ræða. Hér væri í besta falli á ferðinni áætlun kostnaðar varðandi tiltekna verkþætti sem markaðstofan yrði mögulega fengin til að sinna.
Eins væri ekki víst að Unnar Helgi hafi samþykkt greiðslur og verkþætti þar sem hann hafði ekki kvittað á þá síðu skjalsins. Það sé tilgangur íslenska félagsins að halda utan um eignir, viðskipti og fjármálagerninga. Samkvæmt samþykktum sé stjórn félagsins fjölskipuð og meirihluti stjórnar undirriti firma. Samningagerð sem þessi hafi því ekki rúmast í prókúruumboði Unnars Helga.
Ef svo færi að dómari teldi samning hafa komist á þá bæri samt að sýkna Thor’s skyr ehf af kröfu markaðsstofunnar. Moni Growth hafi nefnilega ekki efnt samninginn hvað þeirra hlut varðaði.
Dómari rakti að samkvæmt skýrslum sem vitni gáfu í málinu sé ljóst að upphaflega hafi það verið bandaríska félagið sem ætlaði að ganga til samninga við markaðsstofuna. Það hafi ekki getað farið framhjá Moni Growth enda tekið skýrt fram í skjalinu að hér væri um Thor’s skyr LLC að ræða. Greinilegt var að auki að þetta hafi ekki farið framhjá stofunni sem reyndi líka að rukka bandaríska félagið. Því hefði markaðsstofan stefnt röngu félagi og málinu var vísað frá.
Situr markaðsstofan því uppi með málskostnað og reikning sem líklega verður ekki greiddur í bráð.