Ekki þarf að leita lengi þar til maður finnur orð eins og „fíaskó“ og „misheppnuð“ þegar gagnsókninni er lýst.
B.T. leitaði til Anders Puck Nielsen, hernaðarsérfræðings við danska varnarmálaskólann, og Claus Mathiesen, lektors við danska varnarmálaskólann, og spurði þá hvernig þeir telja að gagnsóknin hafi gengið og hvort henni sé lokið.
„Úkraínsku gagnsókninni er líklega lokið og ef henni er ekki alveg lokið, þá sjáum við nú síðustu hluta hennar,“ sagði Nielsen og Mathiesen tók undir þetta og sagði að hún muni væntanlega ekki skila miklum árangri það sem eftir lifir árs.
Eins og áður sagði þá varð nokkur bið á því að gagnsóknin hæfist og það var ekki fyrr en í sumar sem það fór að bera á hreyfingum úkraínskra hersveita. Talað var um að hluti af markmiðinu með gagnsókninni væri að ná bænum Tokmak í Zaporizjzja úr höndum Rússa. Bærinn er nærri mörgum mikilvægum samgönguæðum og það myndi gera Rússum mjög erfitt fyrir ef Úkraínumenn næðu bænum á sitt vald.
Enn metnaðarfyllra markmið var að komast alla leið að Azov hafi og þar með skera það svæði, sem Rússar hafa á sínu valdi, í tvennt og þar með einangra Krímskaga.
En nú er kominn nóvember og gagnsóknin hefur staðið yfir í hálft ár og Úkraínumenn eru víðs fjarri því að ná að Azov hafi og eru um 20 km frá Tokmak.
Nielsen sagði að gagnsóknin hafi ekki uppfyllt þær væntingar sem voru gerðar til hennar. „Margir höfðu vonast eftir góðum árangri, nánst að Úkraína myndi sigra í stríðinu. En það er víðsfjarri því,“ sagði hann og bætti við að sóknin hafi ekki verið sú skyndilausn sem sumir hafi talið að hún yrði. „Úkraína hefur ekki náð neinum árangri sem breytir gangi stríðsins svo máli skiptir,“ sagði hann.
Nielsen og Clausen segja þó að ekki sé um eintómt svartnætti að ræða fyrir Úkraínumenn. „Þrátt fyrir að gagnsóknin hafi ekki skilað tilætluðum árangri, þá hefur hún sýnt að Úkraína á möguleika,“ sagði Nielsen og bætti við að í vetur geti Úkraínumenn sparað skotfæri, þjálfað hermenn, tekið við hergögnum frá Vesturlöndum og því henti það þeim kannski mjög vel að vera í vörn næstu mánuðum því það sé mjög erfitt og dýrt að sækja fram.
Mathiesen tók undir þetta og sagði að ef veðrið verður gott næsta vor þá geti verið að Úkraínumenn nái einhverjum árangri. Enn streymi vopn til þeirra en það verði eitthvað að gerast á næsta ári.
Hvað varðar árangurinn af gagnsókninni á þessu ári sagði Mathiesen að hún hafi ekki skilað þeim árangri sem Úkraínumenn vonuðust eftir en Rússar hafi heldur ekki sigrað þá.
Nielsen var harðorðari og sagði að sóknin hafi tvímælalaust verið vonbrigði. Nú sé kominn tími til sjálfsskoðunar, ekki aðeins í Úkraínu heldur einnig hjá NATO og í Bandaríkjunum.