Í dag er þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál gegn manni sem ákærður er fyrir að hafa borið ljúgvitni fyrir dómi í sakamáli árið 2019.
Atvikið átti sér stað 31. október þetta ár en maðurinn bar þá vitni í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sagðist hann þá hafa í félagi við óþekktan aðila staðið að framleiðslu á rúmlega 8,5 kílóum af amfetamíni í sumarhúsi á ótilgreindum stað á landinu (nafnhreinsað í ákæru).
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Fátítt mun vera að menn séu dregnir fyrir dóm á Íslandi fyrir að bera ljúgvitni. Sveinn Andri Sveinsson lögmaður, sem DV leitaði til um álit á málinu, segir það vera mjög sjaldgæft.
„Þetta þyrfti að gera oftar. Menn ljúga miskunnarlaust sem vitni í sakamálum almennt og það hefur enga eftirmála. Það má benda á að ástæðan fyrir því að menn veigra sér við að bera ljúgvitni fyrir t.d. bandarískum dómstólum er sú að þar er tekið mjög hart á ljúgvitnum, jafnt í einkamálum sem sakamálum.“
Segir Sveinn Andri með ólíkindum að maður beri sakir á sjálfan sig eins og raunin er í þessu máli.