Jón heldur umfjöllun sinni áfram í Morgunblaðinu í dag þar sem hann segir að spilling og siðleysi sem lántakendur hér á landi búa við hafi rækilega opinberast síðustu daga. Beinir hann orðum sínum sérstaklega til hagsmunagæslumanna þjóðarinnar á Alþingi og segir að þeir einir geti breytt okri og græðgi bankanna með lagasetningu.
Jón skrifaði grein á dögunum þar sem hann benti til dæmis á mann sem greiddi 350 þúsund krónur á mánuði af óverðtryggðum lánum. Af þeirri upphæð lækkuðu lánin um fimm þúsund krónur á mánuði. Hann nefndi fleiri sambærileg dæmi, til dæmis af lántakanda sem greiðir 177 þúsund krónur á mánuði en af þeirri upphæð fara 2.900 krónur til lækkunar á láninu.
Sjá einnig: Jóni brugðið þegar hann fór að skoða lánin hjá bönkunum og nefnir sláandi dæmi
Mikil umræða hefur verið um málið enda um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir heimili landsins. Jón segir að í kjölfar greinarinnar hafi fólk birt greiðsluseðla sem sýna bankaokrið og ræningjastefnuna svart á hvítu.
„Ég fékk mikil viðbrögð og greinilegt að mjög margir þjást fjárhagslega og eru á barmi örvæntingar vegna svívirðilegrar okurstefnu í vaxtamálum.“
Jón segir að það séu ekki bara heimilin sem þjást, margir bændur og fyrirtæki séu mjög illa á vegi stödd. Á sama tíma berji bankastjórnendur sér á brjóst og þrír stærstu „okurbankarnir“ hafi kynnt ofurhagnað sinn fyrstu níu mánuði ársins sem er um 60 þúsund milljónir króna.
„En Íslandsbanki varpaði sprengju. Tilkynning kom frá bankanum um vaxtahækkanir á útlánum, meðal annars að fastir vextir óverðtryggðra húsnæðislána myndu hækka um 0,8 prósentustig. Engar skýringar fundust frá bankanum, en risastór sekt vegna lögbrota hans við sölu á hlut ríkisins gæti verið ástæðan. Þannig gæti Íslandsbanki látið viðskiptamenn sína greiða sektina eða hluta hennar. Þvílíkur ósómi ef rétt reynist.“
Jón birtir svo samantekt um viðbrögð ráðamanna síðustu daga. Þannig hafi Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagt í viðtali við DV að háir vextir hér á landi væru pólitísk ákvörðun Sjálfstæðismanna. Lítið hafi komið frá forystumönnum ríkisstjórnarinnar og engin samstaða virðist þeirra á milli um leiðir til lausna og ekki liggi fyrir nein verkáætlun í málinu.
Jón segir ráðamenn þjóðarinnar ekki hafa neina undankomuleið með að finna lausnir með að koma fólki úr þeim fjötrum sem þeir hafa skapað skilyrði fyrir. Landsmenn eigi skýlausan rétt á að geta búið við fjárhagslegt öryggi.
Hann beinir svo orðum sínum að Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra
„Stjórnvöld réðu seðlabankastjóra og hann geystist fram á fjármálavöllinn og lækkaði vexti á miklum hraða. Hann birtist eins og súpermann og var svo klár og vinsæll að Stöð 2 sá ástæðu til að kjósa hann mann ársins 2022. Fólk tók lán til húsnæðiskaupa á viðráðanlegum vöxtum í góðri trú um að nú væri loksins komið fólk með viti í Seðlabankann.“
Jón segir að Ásgeir hafi ekki verið lengi í paradís og mikil mistök verið gerð með alltof hröðum vaxtalækkunum. „Verðbólga fór vaxandi og nokkrum vikum seinna voru bankarnir komnir með okrið upp úr öllu valdi og fólk stóð varnarlaust í boði stjórnvalda og Seðlabankans.“
Hann segir að lokum að fólk hafi verið leitt í fjárhagslega gildru.
„Fyrirkomulag lánamála er bara mannanna verk. Engin samkeppni virðist vera milli bankastofnana og „lánasamningar“ eru í raun ekki samningar, heldur skilyrði sem lántakendur hafa ekkert um að segja. Það er alveg ljóst að bankaokrið hvílir þungt á mörgum. Stjórnvöld verða að taka málið föstum tökum. Þetta verður að stöðva og það verður að leysa fólk úr gildrunni.“