Þetta sagði Mosab Hassan Yousef, sem er sonur eins af stofnendum Hamas, í samtali við alþjóðlega fjölmiðla fyrir helgi.
Mosab Hassan Yousef sagði skilið við Hamas á tíunda áratug síðustu aldar og gerðist njósnari fyrir ísraelsku leyniþjónustuna Shin Bet á árunum 1997 til 2007. Upplýsingar frá honum komu í veg fyrir fjölda sjálfsmorðsárása og morð á Ísraelsmönnum. Þær komu einnig föður hans á bak við lás og slá.
Hann sagði blaðamönnum að Hamas standi nú í heilögu stríði án nokkurs lokatakmarks og að samtökin muni ekki sætta sig við að ráða aðeins ríkjum á Gaza. „Ef Hamas væru pólitísk samtök gætum við fullnægt pólitískum markmiðum þeirra en þetta er trúarleg hreyfing sem trúir ekki á pólitísk mörk. Þau vilja koma á íslömsku ríki á rústum Ísraels,“ sagði hann í samtali við CNN.
Hann sagði að Hamas vilji „útrýma gyðingum“ og öllum þeim sem styðja Ísrael. „En það er ekki nóg, því markmið þeirra eru á heimsvísu. Þeir vilja koma á íslömsku ríki um allan heiminn,“ sagði hann einnig.
Hann sagði það ekki hafa komið sér á óvart þegar Hamas réðst á Ísrael í byrjun október þar sem almennir borgarar voru brytjaðir niður. Á þeim tíma sem hann var meðlimur í samtökunum hafi hann séð þau standa fyrir morðum og pyntingum á eigin liðsmönnum ef þeir voru grunaðir um að starfa með Ísrael. Þetta varð til þess að hann ákvað að segja skilið við samtökin.
„Svo ég er ekki hissa á hversu langt Hamas samtökin eru reiðubúin að ganga en umfang árásarinnar þann 7. október held ég að hafi komið öllum á óvart. Meira að segja Hamas,“ sagði hann.
Ísraelsmenn hafa gert harðar árásir á Gaza síðustu vikur og hafa tæplega 10.000 manns látist þar, þar á meðal mörg þúsund börn, samkvæmt upplýsingum frá Hamas. Mikill skortur er á mat, lyfjum, vatni og rafmagni og hafa mannréttinda- og hjálparsamtök sakað Ísrael um að virða ekki alþjóðalög.
Mosab Hassan Yousef segir að ekki eigi að gera Ísraelsmenn ábyrga fyrir stöðunni, þetta sé Hamas að kenna. „Þeir opnuðu dyr helvítis fyrir palestínsku þjóðina. Hamas veittu Ísrael og hinum frjálsa heimi ekkert annað val en að berjast gegn samtökunum og binda enda á ofbeldisverk þeirra. Margir óbreyttir borgarar deyja. Það skil ég. En blóð þeirra er aðeins á höndum Hamas,“ sagði hann í samtali við Piers Morgan í síðustu viku.
Í samtali við CNN sagði hann að alþjóðasamfélagið verði að styðja Ísrael í baráttunni við að útrýma Hamas því annars verði næsta stríð enn blóðugra.
Hann býr nú í Bandaríkjunum en þar fékk hann pólitískt hæli 2010. Sama ár gaf hann út bók þar sem hann skýrði frá njósnum sínum fyrir Ísrael.