Drengurinn sem lést í slysi á Ásvöllum í Hafnarfirði mánudaginn 30. október hét Ibrahim Shah Uz-Zaman, hann var átta ára gamall.
Jarðarför Ibrahims fór fram föstudaginn 3. nóvember í Gufuneskirkjugarði.
Minningarathöfn var haldin í veislusal Hauka á Ásvöllum í gær, en Ibrahim æfði fótbolta með félaginu. Þangað voru allir boðnir velkomnir til að minnast Ibrahims með hans nánustu. Bænastund og samverustund fóru fram í Ástjarnarkirkju á þriðjudag og miðvikudag í síðustu viku.
„Ibrahim Shah Uz-Zaman hvílir nú í friði hér á jörðu. Hann var umvafinn fjölskyldu og ástvinum í dag, 3. nóvember. Hann heldur þó áfram að lifa í hjörtum okkar allra. Litar tilveruna með eftirminnilega brosinu sínu og dreifir ást, kærleika og fótboltatrixum upp í himnaríki.“
Slysið er til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Rannsóknarnefnd samgönguslysa. Ibrahim var á reiðhjóli á bílastæðinu milli Ásvallalaugar og íþróttahúss Hauka þegar hann varð fyrir steypubíl. Engin vitni urðu að slysinu, en lögregla telur sig hafa skýra mynd af aðdraganda slyssins.