Þetta er meðal þess sem kemur fram í langri aðsendri grein þeirra sem birtist á vef Vísis í morgun.
„Það sem við rekjum hér á eftir ætti að vekja alvarlegar spurningar um hæfi æðstu stjórnenda Seðlabankans og við teljum ljóst að hvorki Seðlabankinn né Seðlabankastjóri sjálfur, njóti trausts þjóðarinnar lengur,“ segir meðal annars í greininni og fullyrt að eftir hann liggi slóð mistaka sem hafa haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar.
„Jú það kom heimsfaraldur og stríð í Evrópu, en engin Seðlabanki í samanburðarlöndum hefur ráðist jafn harkalega gegn almenningi og Seðlabanki Íslands með aðgerðum sínum.“
Bent er á að skipunartími seðlabankastjóra renni út í ágúst á næsta ári. „Það þýðir að fyrir febrúar á næsta ári þarf forsætisráðherra að taka í taumanna og auglýsa þessa stöðu að nýju, því annars sitjum við uppi með Ásgeir Jónsson í fimm ár í viðbót. Það er algjörlega óhugsandi og óásættanlegt,“ segir í grein þeirra.
Auk þess að krefjast uppsagnar seðlabankastjóra krefjast Ragnar og Ásthildur þess að sett verði neyðarlög til verndar heimilum, vextir lækkaðir hratt niður í að minnsta kosti 4 prósent og bremsa eða þak sett á leiguverð.
Í grein sinni segjast þau vita að hér verði ekki bankahrun eins og varð árið 2008, einfaldlega af því að núna er verið að gulltryggja bankana og fjármálakerfið.
„Þegar næsta efnahagskreppa kemur í heiminum verða bankarnir á Íslandi búnir að fylla net sín af heimilum og fyrirtækjum og geta í rólegheitum farið að draga aflann inn, ef þeir bíða þá svo lengi eftir að vinna hann og slægja. Þá munum við sjá hrun heimilanna.“
Ragnar og Ásthildur telja að Seðlabankinn sé ekki hættur að hækka vexti og ekki sé nema um tvennt að velja: „Að þau séu svona hræðilega illa að sér og því algjörlega óhæf til starfa. Að þetta sé allt með ráðum gert og þau séu að vinna fyrir fjármálaöflin í landinu og markvisst að koma heimilum og fyrirtækjum í gráðugan faðm þeirra og því algjörlega óhæf til starfa.“
Í greininni fjalla þau einnig um greiðsluseðla sem vakið hafa mikla athygli á netinu að undanförnu. Á einum slíkum sést að heildargreiðsla af láni er 500 þúsund krónur á mánuði og 490 þúsund krónur eru vaxtagreiðslur. Aðeins 10 þúsund krónur fara inn á höfuðstólinn.
„Þetta eru ekki falsaðir seðlar heldur raunveruleikinn sem blasir við þúsundum heimila um hver mánaðamót, í boði Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar, sem er nýbúin að gefa það út að hún standi heilshugar að baki Seðlabankanum og aðgerðum hans. Í þessu dæmi greiðir heimilið 6 milljónir á einu ári til bankans og af þeim fara 120.000 inn á höfuðstól lánsins. 5,9 milljónir fara hins vegar frá heimilinu og beint í fjárhirslur bankans.“
Skilaboð Ragnars og Ásthildur eru skýr:
„Þetta er að okkar mati glæpsamlegt. Þetta er ekkert annað en rán sem ekki er hægt að réttlæta með nokkru móti. En Seðlabankastjóri hefur ekki áhyggjur af þessu, hann hefur hins vegar miklar áhyggjur af því að sparifjáreigendur fái ekki nógu háa vexti. Nú skal tekið fram að við höfum ekkert á móti sparifjáreigendum. Fólk sem hefur náð að leggja fyrir í gegnum tíðina á hrós skilið fyrir það, sérstaklega þau sem hafa náð því með sparnaði og ráðdeild í gegnum áratugi. En þetta fólk hefur aldrei verið of sælt á þeim kjörum sem bankarnir hafa boðið þeim upp á. Það er staðreynd sem ekki er hægt að líta fram hjá. Vextir á flestum sparnaðarreikningum hafa verið fáránlega lágir í gegnum tíðina og bankarnir stungið mismuninum á lágum innlánsvöxtum sínum og vöxtunum sem Seðlabankinn greiðir þeim í eigin vasa.“
Alla grein þeirra Ragnars og Ásthildar má lesa hérna.