Mikið var um slagsmál og líkamsárásir í miðborginni í nótt, að því er segir í dagbók lögreglu. Þar er greint frá því að um hálfþrjúleytið hafi verið tilkynnt um líkamsárás fyrir utan skemmtistað og var einn vistaður í fangageymslu vegna málsins.
Korter yfir þrjú var síðan lögregla kölluð til vegna slagsmála fyrir utan krá og var einn fluttur á lögreglustöð. Honum var síðan sleppt eftir að málsatvik voru orðin ljós.
Laust fyrir klukkan fjögur var tilkynnt um slagsmál í miðborginni. Reyndu tveir að hlaupa undan lögreglu en þeir voru báðir handteknir og þeir vistaðir í fangageymslu.
Á fimmta tímanum var tilkynnt um mann sem reyndi ítrekað að stofna til slagsmála. Var hann handtekinn og kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt en síðan látinn laus.
Ennfremur var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki og er málið í rannsókn.