Þórir, sem varð níræður í fyrra, hefur búið lengi í Bandaríkjunum og segir hann að þau hjónin hafi oft haft áhyggjur af því hvernig þau gætu krækt sér í hangikjötslæri fyrir jólin.
„Jól án hangikjöts voru næstum óhugsandi. Jafnvel barnabörnin, uppalin í Ameríku, njóta þessa hátíðarréttar, sem þau kalla „hangmeat“. Reglur um innflutning á kjötinu hafa verið ruglingslegar en um nokkurra ára skeið var hægt að koma með hangikjöt ef með fylgdi vottorð frá dýralækni á Íslandi. Í tíðum ferðum til ættlandsins gátum við komið með læri í ferðatöskunni. En það var ekki farið til Íslands á hverju ári svo þá varð að beita öðrum ráðum,“ segir Þórir í pistlinum.
Hann rifjar upp að eitt sinn hafi hann keypt læri af samlanda og borgað honum með flösku af vodka.
„Nokkur undanfarin ár hefur þetta verið auðveldara og er tækninni að þakka. Netverslunin Nammi.is hefir selt okkur hangikjöt og annað íslenskt góðgæti, sem sent hefir verið með flugi og hefir það borist á þremur til fjórum dögum. En svo gerðist það í fyrra að bandarísk yfirvöld bönnuðu innflutning á öllu íslensku kjötmeti. Nammi tilkynnti viðskiptavinum sínum að utanríkisráðuneytið ætlaði að funda með bandarískum yfirvöldum og reyna að leysa málið en ekkert hefur heyrst meira.“
Þórir segir að fyrir mörlanda í útlöndum sé þetta alvarlegt mál og finnst þeim íslensk stjórnvöld ekki hafa sýnt því nægilegan skilning.
„Það er áríðandi fyrir Ísland að halda góðum tengslum við þær þúsundir landsmanna sem búa í Ameríku. Ef þeir fá ekki hangikjöt og annan íslenskan hátíðamat dofna tengslin við gamla landið. Ég hafði vonast til að okkar glæsilega utanríkisráðsfrú gæti sjarmerað bandarískan starfsbróður sinn, Anthony Blinken, upp úr skónum næst þegar þau hittust. Hún gæti hvíslað í eyra hans og látið hann kippa þessu máli í liðinn. En nú er Bjarni Ben búinn að eyðileggja það allt saman, og örugglega getur hann ekki sjarmerað neinn upp úr skónum.“
Þórir segir að því verði að nota önnur og harkalegri ráð.
„Það þarf að skipuleggja mótmælafundi við bandaríska sendiráðið í Reykjavík og kalla sendiherrann á teppið. Ef það dugar ekki verður að beita hótunum. Fyrst stoppa umsvif Ameríkana á Keflavíkurflugvellinum og svo jafnvel hóta því að við drögum okkur út úr NATO, sem myndi veikja bandalagið feikimikið. Við hættum ekki fyrr en við getum pantað okkar hangikjöt í Nammi.is.“