Úrskurðarnefnd upplýsingamála vísaði í október frá máli kennara við Tækniskólann sem freistaði þess að fá afhenda skýrslu frá Líf og sál án yfirstrikanna. Skýrslan varðaði meint einelti sem kennarinn taldi sig hafa orðið fyrir eftir að nemandi í kynjafræði við Háskóla Íslands gerði verkefni.
Kennara við Tækniskólann var ekki skemmt eftir að annar kennari við skólann vann verkefni í meistaranámi í kynjafræði við Háskóla Íslands. Staðhæft var í verkefninu að innan skólans væri mikil karlremba og eitruð karlmennska réði þar ríkjum. Fyrrnefndur kennari sneri sér að höfundi verkefnis og fékk þær skýringar að þessi staðhæfing væri hvorki byggð á rannsóknum né gögnum.
Í kjölfarið hafi hann veitt því eftirtekt að viðhorf til hans sem kennara við skólann hafði breyst. Loks fór svo að hann var ítrekað kallaður á fund með stjórnendum og upplýstur um kvartanir frá nemendum vegna framkomu hans. Kennaranum hafi þó aldrei tekist að fá neinar handbærar sannanir fyrir því að fótur væri fyrir þessum kvörtunum. Varð hann því ósáttur við það hvernig stjórnendur tóku á málum, en framkoma þeirra í hans garð væri hvorki í samræmi við stefnur, markmið eða gildi skólans.
Hann krafðist þess því að faglegur og hlutlaus aðili yrði fenginn til að gera rannsókn á vinnuumhverfinu í Tækniskólanum, og þá hvort þar væri farið eftir lögum og reglugerðum um vinnuvernd, og tilgreindar stefnur sem skólinn hafi sett sér. Eftir að hafa lagt fram þessa kröfu var kennarinn sendur í leyfi á meðan málið var í vinnslu.
Sálfræði- og ráðgjafarstofunni Lífi og sál var farið að gera rannsóknina. Niðurstaða kom í málinu í júní á þessu ári og var kennarinn þá boðaður á fund. Vildi kennarinn þá fá skýrsluna afhenta. Þurfti hann að ganga nokkuð eftir því og fékk loks hluta skýrslunnar þar sem nöfn og upplýsingar allra nema hans sjálfs höfðu verið afmáð. Útskýrði skólinn útstrikaðir með vísan til þess að þeim væri óheimilt að afhenda skýrsluna í heild.
Kennarinn sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og leitaði til úrskurðarnefndar upplýsingamála og heimtaði skýrsluna í heild sinni auk fleiri gagna. Tækniskólinn tók til varna og bentu fyrst og fremst á að úrskurðarnefndin væri ekki bær til að fella úrskurð, enda fjalli nefndin um stjórnvöld og stjórnvaldsákvarðanir en ekki einkaaðila líkt og Tækniskólann. Niðurstaða Lífs og sálar var að kennarinn hefði ekki verið lagður í einelti og að skólinn uppfyllti kröfur um sálfélagslegt öryggi starfsmanna.
Úrskurðarnefndin rakti að samkvæmt upplýsingalögum eigi þau við alla starfsemi stjórnvalda og þeirra lögaðila sem er að meirihluta í eigu ríkisins. Eins geti þau átt við um einkaaðila, jafnvel þó ríkið eigi ekkert í þeim, en þá aðeins ef þeim aðila hefur með lögum eða öðru verið falið að taka stjórnvalsákvarðanir eða framfylgja lögbundnu hlutverki stjórnvalds. Svo sem skólastarf sem heyri undir lög um framhaldsskóla. Því geti upplýsingalögin átt við um Tækniskólann. Þó þurfi að horfa til þess að í þessu tiltekna máli er um starfsmannamál að ræða. Starfsmenn skólans séu ekki opinberir starfsmenn og starfsmannahald sé ekki hluti af opinberri þjónustu sem skólanum hafi verið falin.
Því heyri málið ekki undir upplýsingalögin og úrskurðarnefnd ekki annað fært en að vísa málinu frá.